Menning

Leynilegt handrit eftir Sjón kemur út árið 2114

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Katie Paterson og borgarstjóri Oslóar, Marianne Borgen, tóku við verkinu. Seinna um daginn var dagskrá um Sjón og verk hans í Deichmannske borgarbókasafninu.
Katie Paterson og borgarstjóri Oslóar, Marianne Borgen, tóku við verkinu. Seinna um daginn var dagskrá um Sjón og verk hans í Deichmannske borgarbókasafninu. Forlagið
Við ferðumst rúmlega hundrað ár fram í tímann. Árið er 2114. Verið er opna Framtíðarbókasafnið í Osló sem stofnað var árið 2014 af skoska listamanninum Katie Paterson. Í bókasafninu eru geymd verk sem hafa ekki litið dagsins ljós í hundrað ár. Enginn veit hvað verkin fjalla um; rithöfundar sverja þess eið að upplýsa aldrei um söguþráð verkanna. Spennan er óbærileg.

Í safnkosti safnsins má finna óútgefið bókmenntaverk eftir Sjón sem nú, árið 2114, hefur verið geymt í sérstöku herbergi safnsins í 97 ár. Handrit Sjóns var þriðja handritið sem safnið tók við frá stofnun þess 2014.

Hugsjón Paterson er afar áhugaverð og snýst um að fá einn nýjan rithöfund árlega, á hverju ári frá stofnun Framtíðarbókasafnsins, til að skrifa verk og leggja til safnsins.

Dularfulla handritið 

Mikil athöfn var haldin í kjölfar þess að Sjón skilaði handritinu inn. Athöfnin sjálf fór fram í skóginum Nordmarka sem notaður verður til að framleiða pappír fyrir verkin. Fólk hvaðan æva að var samankomið til að fagna verkinu. Katie Paterson og borgarstjóri Oslóar, Marianne Borgen, tóku við verkinu. Seinna um daginn var dagskrá um Sjón og verk hans í Deichmannske borgarbókasafninu. 

„Afhendingarathöfnin fór fram í Nordmarka, borgarskógi Oslóarbúa, og hún hófst á því að fólk safnaðist saman í jaðri skógarins. Þetta var nokkuð stór hópur enda viðburðurinn opinn almenningi og margir komnir langt að, frá Englandi og North-Dakota til dæmis. Þaðan var svo gengið í hóp inn í skóginn að rjóðrinu sem fóstrar smáplönturnar sem eru í óðaönn að vaxa svo þær verði orðnar að stórum trjám árið 2114.

Þar tók við dagskrá þar sem Ásgerður Júníusdóttir, mezzó-sópran og hörpuleikarinn Marion Herrera fluttu tvö lög sem ég hafði valið, og eru kannski og kannski ekki, tengd efni handritsins, “ segir Sjón. Leikið var lag Atla Heimis Sveinssonar við Heiðlóarkvæði Jónasar Hallgrímssonar ásamt Vögguvísu eftir Sjón og Ragnhildi Gísladóttur.

Sjón vonar að verkið muni vekja áhuga hjá lesendum framtíðarinnar.Vísir/Stefán

Bauð upp á íslenskt handrit

Sjón kynntist Paterson á bókmenntahátíðinni í Louisiana safninu fyrir tveimur árum. Þar heyrði hann fyrst af hugmyndum hennar um Framtíðarbókasafnið

„Mér leist samstundis vel á þetta og skrifaði henni það þegar ég var kominn heim til Íslands. Sagði henni að ef hún einhvern tímann vildi fá verk á íslensku í bókasafnið þá væri ég til. Nokkru síðar var tilkynnt að Margaret Atwood yrði fyrst til skrifa fyrir safnið og árið eftir var David Mitchell kallaður til. Ég fylgdist afbrýðisamur með þeim úr fjarlægð. Svo var það síðasta haust að ég fékk tölvupóst frá Katie þar sem hún fyrir hönd Framtíðarbókasafnsins bauð mér til leiks. Ég sagði auðvitað samstundis já! “ segir Sjón.



Að baki valinu stendur nefnd sem skipuð er af alþjóðlegum útgefendum og framkvæmdaaðilum verkefnisins. Sjón segir það vera mikinn heiður að fá að vera í hópi rithöfunda á borð við Margaret Atwood og David Mitchell, sem bæði eiga verk í safninu.

„Það er fyrst og fremst gaman að fólki þyki maður eiga heima í félagsskap með Margaret og David. Bæði eru frábærir rithöfundar og manneskjur, og ekki síst virk í því að efla bókmenntirnar sem afl til góðs í veröldinni. Umfjöllun um verkið er líka mikil og hefur verið sagt frá því og valinu á höfundinum frá Íslandi í fjölda fjölmiðla um allan heim. T.d. sýndi Der Spiegel beint frá afhendingunni í Osló,“  segir Sjón.

 

Lesendur framtíðarinnar

Aðspurður um hvernig hann telji að framtíðarlesendur muni taka verkinu segir Sjón að hann voni að verkið eigi eftir að vekja áhuga á Íslenskri bókahefð.

„Ég vona að það rati til lesenda sem eru áhugasamir um það hvers konar bókmenntir voru ofnar saman á Íslandi fyrir tæpum hundrað árum. Alla rithöfunda dreymir um að textar þeirra standi tímans tönn og auðvitað er það svo að í dag lesum við enn margt sem skrifað var í upphafi síðustu aldar og löngu fyrr. Ég reyndi samt að bægja þessari hugsun frá mér og skrifa eins og ég geri yfirleitt, það er, án þess að hugsa um viðtökur annarra en þess skuggasjálfs míns sem er viðmælandi minn á meðan sköpuninni stendur,“ segir Sjón.

 

Lýsandi titill, eða hvað?

Ómögulegt er fyrir forvitinn blaðamann að reyna að ná upp úr Sjón um hvað verkir fjallar. Það eina sem Sjón má gefa upp um verkið er titill þess:  Þegar enni mitt strýkst við kjólfald engla eða Nokkuð um fallturninn, rússíbannann, snúningsbollana og önnur tilbeiðslutæki frá tímum síð-iðnvæðingarinnar.

„Titilinn segir ekkert um hvort þetta er ljóðabók, ritgerðir, leikrit, skáldsaga eða óperulíbrettó. En ástæðan fyrir því hvað hann er langur gæti verið sú að mig langaði til þess að opna sýn á efni verksins. Svo gæti titillinn líka verið ryk sem ég þyrla upp til að afvegaleiða fólk í spekúlasjónum sínum. Ef textinn lifir af Þyrnirósarsvefninn í skúffunni í borgarbókasafni Oslóar dæma lesendur 21. aldarinnar um hvort er,“ segir Sjón og bætir við að nú taki við það verkefni að þegja yfir innihaldi handritsins það sem eftir er ævinnar.



Nánari umfjöllun um Sjón má finna í helgarblaði Fréttablaðsins. Magnús Guðmundsson, blaðamaður á Fréttablaðinu fylgdi Sjón til Osló og tók viðtal við hann og Katie Paterson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.