Íbúðin er á 432 Park Avenue í New York. Samkvæmt söluyfirliti er hún 373 fermetrar að stærð. Á gólfum er eikarparket og af myndunum hér að neðan að dæma eru innréttingarnar hinar glæsilegustu. Komið er inn í stórt anddyri og við tekur glæsileg setustofa og borðstofa. Íbúðin er í 96 hæða húsi, sem byggt var árið 2015. Þaðan er gott útsýni yfir Central Park.
Róbert keypti íbúðina í gegnum einkahlutafélag sem hann á 100 prósenta hlut í. Af lánsskjölum að dæma hefur hann tekið 14,5 milljóna dala veðlán fyrir íbúðinni. Það er andvirði 1,6 milljarða króna miðað við gengi krónunnar í desember.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er þetta dýrasta íbúð sem Íslendingur hefur átt. Árið 2009 sagði fasteignablað New York Times frá því að Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi 365 miðla, hefðu sett íbúð sína við Gramercy Park North í New York á sölu. Ásett verð var 25 milljónir dala, eða um 3 milljarðar króna.
Róbert Wessman var forstjóri Actavis áður en leiðir skildi með honum og Björgólfi Thor Björgólfssyni í viðskiptum og Róbert stofnaði Alvogen.
Hann er forstjóri síðarnefnda fyrirtækisins í dag. Á vefsíðu Alvogen segir að hann hafi á einungis sex árum byggt Alvogen frá því að vera lítið fyrirtæki í Bandaríkjunum upp í að verða á meðal 15 stærstu samheitalyfjafyrirtækja heimsins, með starfsemi í 35 löndum.
Róbert var kvæntur kvæntur Sigríði Ýri Jensdóttur lækni um árabil, en Séð og heyrt greindi frá því í byrjun árs að hann væri skilinn við eiginkonu sína.




