Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - Þór Ak. 74-66 | Haukar lönduðu sigri

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Finnur Atli Magnússon tekur skot.
Finnur Atli Magnússon tekur skot. vísir/ernir
Haukar og Þór Ak. mættust í kvöld í Dominos deild karla. Búist var fyrir leik að um auðveldan leik væri að ræða fyrir heimamenn frá Ásvöllum en svo var aldeilis ekki.

Haukar byrjuðu betur og voru 7-2 yfir í upphafi leiks. Þór Akureyri, sem margir spámenn hafa gengið svo langt að segja að liðið muni varla vinna leik í vetur, tóku svo yfir leikinn og fóru með verðskuldaða, 21-11, forystu eftir fyrsta leikhluta.

Staðan var 25-35, gestunum í vil, í hálfleik og forystan alveg verðskulduð hjá gestunum. Staðan var svo 48-57 eftir þriðja leikhluta og Haukar eilítið byrjaðir að saxa á forystu Þórs.

Haukar tóku svo gjörsamlega yfir fjórða leikhlutan og skoruðu 26 stig gegn einungis 9 stigum gestana sem virtust missa hausinn á loka mínútunum. Lokatölur 74-66, Haukum í vil sem tóku þetta á lokasprettinum.

Af hverju unnu Haukar?

Það er í rauninni með hreinum ólíkindum að Haukar hafi unnið þetta en liðið bauð upp á mjög dapra frammistöðu framan af leik og unnu þetta bara á síðustu sjö mínútum þar sem leikur heimamanna hrökk loks í gang á meðan leikur gestanna frá Akureyri kolféll.

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, gagnrýndi sína menn harkalega í lok leiks þrátt fyrir sigur og sagði að spilamennska sinna manna hefði ekki verið boðleg nema síðustu sjö mínútur leiksins.

Mjög mikil vonbrigði fyrir Þór Ak. sem hefur verið spáð hroðalegu gengi í vetur. Það hefði verið ansi sterkt að vinna sinn fyrsta leik og það á Ásvöllum en allt kom fyrir ekki.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er bara einn sem kemur til greina að nefna fyrst. Marques Oliver, sem fylgdi Hjalta Þór, þjálfara liðsins frá Fjölni til liðsins í sumar. Oliver átti gjörsamlega þennan leik frá A til Ö og átti svo sannarlega ekki skilið að enda í tapliðinu.

Þessi 26 ára leikmaður endaði leikinn með 33 stig og 20 fráköst en þeir sem komust næst honum voru tveir leikmenn Hauka. Emil Barja með 13 stig og Finnur Atli sem var með 10 fráköst.

Í raun unnu Haukar þetta á einhverri seiglu í lokinn en þeir Emil Barja og Finnur Atli voru þeirra bestu menn en þó einungis í restina.

Hvað gekk illa?

Spilamennska Hauka var hrikaleg framan af leik og þá sást það sérstaklega á fráköstum en Haukar, sem eru með miklu hávaxnara lið en Þór Ak. unnu varla frákast fyrstu þrjá leikhlutana.

Þór Ak. missti svo hausinn og fóru að taka heimskuleg skot í erfiðum stöðum þegar nógur tími var eftir á skotklukkunni og misstu þetta frá sér. Hjalti Þór, þjálfari liðsins, var vægast sagt ekki sáttur í leikslok.

Hvað gerist næst?

Haukar heimsækja frábært lið Grindavíkur og þurfa að hefja leikinn af mun meiri krafti en þeir gerðu í kvöld ætla þeir sér ekki að fara sér að voða.

Þór Ak. mætir Keflavík á heimavelli og þurfa að rífa sig upp úr vonbrigðum kvöldsins. Ef þeir spila alla leikhluta þá eins og þeir gerðu fyrstu þrjá í kvöld er aldrei að vita. Sérstaklega með mann eins og Marques Oliver í sínu liði.

Haukar-Þór Ak. 74-66 (11-21, 14-14, 23-22, 26-9)

Haukar: Emil Barja 13/8 fráköst/6 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 12/10 fráköst, Haukur Óskarsson 12/5 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 12/4 fráköst, Hjálmar Stefánsson 7, Arnór Bjarki Ívarsson 7, Kristján Leifur Sverrisson 5, Breki Gylfason 4/5 fráköst, Roger Camron Woods 2, Jón Ólafur Magnússon 0, Óskar Már Óskarsson 0, Ívar Barja 0.

Þór Ak.: Marques Oliver 33/20 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 12/8 fráköst, Bjarni Rúnar Lárusson 6, Ingvi Rafn Ingvarsson 6/8 fráköst/6 stoðsendingar, Júlíus Orri Ágústsson 5, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 2, Sindri Davíðsson 2, Ragnar Ágústsson 0, Kolbeinn Fannar Gíslason 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Baldur Örn Jóhannesson 0.

Hjalti Þór: Áttum skilið sigur

„Við áttum skilið sigur úr þessum leik,“ sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs Ak., eftir grátlegt tap gegn Haukum í kvöld.

„Við vorum með þennan leik alveg fram að fjórða leikhluta og vorum hreinlega betri en Haukarnir. Þetta var bara spurning um að kunna að klára leikinn í lokin.“

Þór Ak. er spáð hroðalegu gengi í vetur en nýliðarnir eru ekki taldir vera með nógu gott lið fyrir Dominos deildina.

„Við erum ekki mikið að spá í hvað aðrir menn halda um okkur. Við ætlum okkur hluti í vetur og tökum einn leik í einu.“

Marques Oliver var frábær í leiknum og skoraði 33 stig fyrir Þór Ak. en hann á eftir að reynast ansi mikilvægur sé eitthvað að marka þessa frammistöðu.

„Ég vissi alveg hvað ég var að fá. Var með hann í Fjölni og ég vissi að ég væri að væri að fá góðan leikmann.“

Hann segir enga ástæðu til að afskrifa Akureyringana.

„Við erum ungt lið. Meðalaldur í kringum 20 ár og við eigum bara eftir að verða betri í vetur. Næsti leikur verður betri en þessi, ég get alveg lofað því.“

vísir/anton
Oliver: Við komum sterkir til baka

Marques Oliver var stórkostlegur í kvöld fyrir lið Þórs Ak. en hann var af sjálfsögðu vonsvikin með tapið.

„Af sjálfsögðu. Alltaf sárt að tapa fyrsta leiknum. Við börðumst en töpuðum þessu í fjórða leikhlutanum en við komum sterkir til baka.“

Hann átti frábæran leik og skoraði 33 stig fyrir Þór Ak. ásamt því að taka 20 fráköst.

„Það er alltaf betra að vinna. Það skiptir engu máli hversu mikið þú gerðir í leiknum ef þú tapar honum.“

Hann segir sérfræðingana vera að vanmeta Þór Ak. og segir að liðið eigi bara eftir að verða betra.

„Síðan ég kom hingað þá hef ég séð mikla bætingu á mínum leik og líka hjá liðsfélögum mínum. Svo lengi sem við stöndum saman þá held ég ekki að við munum tapa mörgum leikjum í vetur.“

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Schenker-höllinni í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.

Marques Oliver átti frábæran leik í liði Þórsara.vísir/ernir
Hjalti Þór var ósáttur að taka ekki stigin tvö með sér norður.vísir/ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira