Innlent

Einum hinna grunuðu sleppt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, pólsku lögreglunni og Europol greindu frá aðgerðunum á blaðamannafundi á mánudaginn.
Fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, pólsku lögreglunni og Europol greindu frá aðgerðunum á blaðamannafundi á mánudaginn. Vísir/Ernir
Einum þeirra þriggja sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald um miðjan mánuðinn í kjölfar umfangsmikla aðgerða lögreglu þann 12. desember síðastliðinn hefur verið sleppt. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu. Ekki þótti ástæða til að hafa hann lengur í varðhaldi.

Hinir tveir hafa verið í einangrun undanfarna tíu daga en verða leiddir fyrir dómara síðar í dag. Ekki liggur fyrir hvort krafist verði farbanns eða gæsluvarðhalds yfir þeim. 

Fimm Pólverjar voru handteknir hér á landi og þrír úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Mennirnir eru taldir tengjast alþjóðlegum glæpahring sem teygir anga sína til Íslands, Póllands og Hollands. 

Lögregluyfirvöld á Íslandi og Póllandi héldu blaðamannafund á mánudag vegna málsins. Þar kom fram að lagt hefði verið hald á eignir og reiðufé í aðgerðunum 12. desember þar sem farið var í húsleitir. Virði þeirra eigna og reiðufé sem haldlagt var nemur um 200 milljónum króna.

Þá var lagt hald á fíkniefni en söluvirði eiturlyfjanna nemur um 400 milljónum króna.

Fram kom í Fréttablaðinu á þriðjudaginn að verslunarfyrirtækið Market ehf, sem rekur pólskar smávöruverslanir undir nafninu Euro Market, tengist málinu. Voru eigendur þess meðal hinna handteknu.


Tengdar fréttir

Euro Market viðriðið glæpahringinn

Grunur leikur á að verslunarfyrirtækið Market ehf. tengist umfangsmiklu sakamáli sem greint var frá á blaðamannafundi í gærdag og teygir anga sína til Íslands. Lögreglan fór í húsleitir í pólskum smávöruverslunum Euro Market.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×