Erlent

Norður-Kórea undirbýr mikla sýningu á Degi sólarinnar

Kim Jong-un í höfuðborg Norður Kóreu í gær.
Kim Jong-un í höfuðborg Norður Kóreu í gær. Vísir/Getty
Undirbúningur fyrir mikla hersýningu og fagnaðarlæti á Degi sólarinnar í höfuðborg Norður-Kóreu, Pyongyang, sem fram fer á morgun. AFP greinir frá.

Dagur sólarinnar markar fæðingarhátíð stofnanda Norður-Kóreu, Kim Il-Sung, afa núverandi leiðtoga ríkisins, Kim-Jong un.

Íbúar í höfuðborginin röðuðu blómum og körfum undir myndum af Kim Il-Sung í dag auk þess sem að hermenn stilltu sér upp meðfram bökkum Tadeong sem rennur í gegnum höfuðborgina.

Reiknað er með að mikil hersýning fari fram á morgun í höfuðborginni. Hermenn munu marsera auk þess sem að ýmis hergögn verða til sýnis.

Talið er líklegt að yfirvöld í Norður-Kóreu muni senda Bandaríkjamönnum og heimsbyggðinni allri ákveðin skilaboð um herstyrk ríkisins í skugga mikillar spennu á Kóreuskaga eftir að Bandaríkin sendu flotadeild á svæðið.

Sérfræðingar í hernaðarmálum fylgjast jafnan grannt með slíkum sýningum og á morgun munu þeir sérstaklega fylgjast með hvort að ný langdræg flugskeyti verði til sýnis.

Margt þykir einnig benda til þess að Norður-Kórea muni á næstu dögum gera tilraun með kjarnorkuvopn, sína sjöttu til þessa, þar af tvær á síðasta ári.

Kjarnorkutilraunin er ástæða þess að Bandaríkin hafa sent flotadeildina til Kóreuskaga. Hefur Donald Trump, Bandaríkjaforseti, gefið til kynna að kjarnorkuvopnatilraunum Norður Kóreu verði svarað af krafti og óttast Kínverjar mjög að til átaka muni koma.

Komi til þess er ljóst að Norður-Kórea mun svara öllum árásum fullum hálsi og mun hersýningin á morgun veita innsýn í herstyrk Norður-Kóreu.


Tengdar fréttir

Stormur í vatnsglasi eða yfirvofandi innrás?

Á annað hundrað þúsunda kínverskra hermanna eru við landamærin að Norður-Kóreu. Bandarísk flotadeild er við ströndina. Leiðtoginn hótar að skjóta kjarnorkusprengjum. Suður-Kórea heldur heræfingar við landamæri ríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×