Körfubolti

Sandra Lind og félagar spila fyrsta leikinn í lokaúrslitum um danska titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Lind Þrastardóttir  er hér númer 15 með félögum sínum úr landsliðinu.
Sandra Lind Þrastardóttir er hér númer 15 með félögum sínum úr landsliðinu. Vísir/Ernir
Íslenski landsliðsmiðherjinn Sandra Lind Þrastardóttir og félagar hennar í Hörsholm 79ers eru komnar alla leið í úrslitaeinvígið um danska meistaratitilinn. Leikur eitt er í kvöld.

Sandra Lind er aðeins tvítug en er samt búinn að spila marga stóra leiki með Keflavík og íslenska landsliðinu. Hún fór út í nám í vetur og hóf að spila með Hörsholm 79ers.

Sandra Lind skoraði 5,3 stig og tók 4,3 fráköst að meðaltali á 17,3 mínútum í undanúrslitaeinvíginu sem Hörsholm 79ers vann 3-0. Besta frammistaða hennar var í síðasta leiknum þar sem hún skoraði 10 stig, tók 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar á 20 mínútum.

Sandra Lind fór með Keflavíkurliðinu í lokaúrslitin bæði 2013 og 2015. Hún varð Íslandsmeistari í fyrra skiptið en varð að sætta sig við silfrið fyrir tveimur árum.

Hörsholm 79ers mætir deildarmeisturum Virum GO Dream í úrslitaeinvíginu. Virum GO Dream vann 16 af 18 leikjum sínum í deildarkeppninni en hefur tapað einum leik meira en Hörsholm í úrslitakeppninni.

Virum GO Dream vann tvo fyrstu leikina á móti Hörsholm í deildinni en í síðasta leik liðanna í byrjun febrúar þá fögnuðu Sandra Lind og félagar 70-59 sigri og það á útivelli.

Hörsholm 79ers hefur unnið alla fimm leiki sína í úrslitakeppninni og er því til alls líklegt í lokaúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×