Lífið

Framleiðsla Bachelor in Paradise hefst á ný eftir ásakanir um kynferðisbrot

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Corinne Olympios sakaði DeMario Jackson um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi. Þau sjást hér bæði á mynd.
Corinne Olympios sakaði DeMario Jackson um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi. Þau sjást hér bæði á mynd.
Framleiðendur þáttanna Bachelor in Paradise segja engan þátttakanda í þættinum hafa hagað sér illa eða verið nokkurn tímann í hættu við tökur á þættinum. Framleiðslu þáttanna var hætt á dögunum eftir að þátttakandi sakaði meðspilara sinn um kynferðisofbeldi. Þá mun framleiðsla þáttanna hefjast að nýju innan skamms. AP-fréttaveita greinir frá.

Yfirlýsing framleiðendanna er gefin út í kjölfar ásakana Corinne Olympios, eins þátttakenda í þáttunum en hún hafði sakað meðspilara sinn, DeMario Jackson, um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi í sundlaug við hótel þar sem tökur á þáttunum fóru fram í Mexíkó. Hún sakaði framleiðendur þáttanna einnig um að hafa láðst að vernda sig fyrir Jackson en hún sagðist hafa verið mjög drukkin og ekki hafa getað samþykkt það sem fram fór í sundlauginni.

Framleiðslu þáttanna verður nú haldið áfram en henni hafði verið hætt á meðan ásakanir Olympios voru rannsakaðar. Myndbandsupptökur af atvikinu sem Olympios vísaði í voru skoðaðar af fulltrúum framleiðsuvers þáttanna, Warner Bros., og utanaðkomandi lögfræðistofu. Í tilkynningu er skoðunin sögð hafa leitt í ljós að myndefnið „renni ekki stoðum undir neina ákæru um ósæmilega hegðun af hendi þátttakenda í þáttunum.“

Þá er einnig þvertekið fyrir að öryggi Olympios hafi verið ógnað. Framleiðendurnir segjast þó ætla að koma á stefnubreytingum til að „auka og tryggja öryggi“ allra þátttakenda.

Þættirnir Bachelor in Paradise fjalla um fyrrum keppendur úr þáttunum The Bachelor og The Bachelorette sem hafa ekki enn þá fundið ástina. Gert er ráð fyrir að þáttaröðin verði sýnd í bandarísku sjónvarpi í sumar eins og áætlað var.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×