Innlent

Heiða Björg býður sig fram til varaformanns Samfylkingarinnar

atli ísleifsson skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir.
Heiða Björg Hilmisdóttir.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík og stjórnarformaður Strætó, hefur ákveðið að bjóða sig fram til varaformennsku í Samfylkingunni.

Samfylkingin mun velja sér nýjan varaformann á flokksstjórnarfundi í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ laugardaginn 4. febrúar næstkomandi í stað Loga Einarssonar, sem tók við formennsku í flokknum eftir síðustu alþingiskosningar.

Í tilkynningu frá Heiðu Björgu segir að framundan séu spennandi tímar við endurreisn flokksins, undirbúning sveitarstjórnakosninga og pólitíska baráttu fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar.

„Ég óska eftir skýru umboði til að leiða þá vinnu með formanni flokksins.

Verkefnin eru sannarlega ærin, andspænis afar hægrisinnaðri ríkisstjórn og sundraðri hreyfingu jafnaðarmanna. Engu að síður tel ég fullt tilefni til bjartsýni, enda býr Samfylkingin yfir miklum mannauði og jafnaðarstefnan á brýnt erindi, nú sem fyrr.

Ykkur sem hafið að undanförnu hvatt mig til framboðs og sent mér jákvæð viðbrögð á mitt pólitíska starf, þakka ég af heilum hug, enda er fátt mikilvægara stjórnmálamanni, en að finna slíka velvild. Ég hlakka til áframhaldandi samfylgdar og samstarfs – saman mótum við betra samfélag fyrir alla!,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×