Hátt í átján þúsund manns hafa sótt um starf í Ikea verslun í Belgrad í Serbíu sem verður opnuð á næstu mánuðum. Umsóknir hafa streymt hratt inn frá því að verslunin auglýsti eftir fólki í 250 stöðugildi.
Um er að ræða fyrstu Ikea verslunina í Serbíu en hún verður rétt fyrir utan höfuðborgina. Raunar var ein slík búð í Belgrad þegar borgin var hluti af Júgóslavíu, en verslunin varð ekki langlíf.
Nýja Ikea búðin verður opnuð í sumar og stefnt er að því að opna á fjórum öðrum stöðum í landinu í kjölfarið.
Atvinnuleysi í Serbíu er mikið. Það mældist 19,7 prósent á síðasta ári, en íbúar eru 7,2 milljónir talsins. Meðaltekjur Serbans eru í kringum 370 evrur, eða um 43 þúsund krónur, að því er Afp fréttastofan greinir frá.
