Innlent

Hringvegurinn mun liggja um firðina í stað Breiðdalsheiðar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leið þjóðvegar 1 um Austurland hefur lengi verið deiluefni en vegurinn sem nú liggur um Breiðdalsheiði er ekki ruddur á veturna.
Leið þjóðvegar 1 um Austurland hefur lengi verið deiluefni en vegurinn sem nú liggur um Breiðdalsheiði er ekki ruddur á veturna. Vísir/Björgvin
Hringvegurinn, þjóðvegur 1, mun framvegis liggja um firðina á Austurlandi en ekki um Breiðdalsheiði eins og nú er. Þetta tilkynnti Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, í dag.

Ráðherrann tók þátt í aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem haldinn var á Breiðdalsvík í dag. Í ávarpi sínu tilkynnti hann þá ákvörðun að skilgreining og merking Hringvegarins, þjóðvegar 1, muni framvegis vera um firðina í stað þess að liggja um Breiðdalsheiði eins og nú er.

Ákvörðunin er tekin í samráði við Vegagerðina sem „hefði metið þessa breytingu út frá ýmsum hliðum,“ að því er segir í frétt á vef stjórnarráðsins.

Leið þjóðvegar 1 um Austurland hefur lengi verið deiluefni en vegurinn sem nú liggur um Breiðdalsheiði er til að mynda ekki malbikaður og heldur ekki ruddur á veturna.

Skipa starfshóp vegna jarðganga til Seyðisfjarðar

Þá sagði ráðherra í ávarpi sínu að uppbyggður heilsársvegur um Öxi væri forgangsmál og kynnti einnig skipan starfshóps sem fara á yfir möguleika á jarðgangagerð til að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar. Hópnum yrði falið að meta möguleika á annars vegar jarðgöngum milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs eða hins vegar jarðgangatengingu Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar og Norðfjarðar með göngum milli Fagradals og Mjóafjarðar.

Sagði ráðherra það skoðun sína að þessi framkvæmd væri næst í röðinni þegar Dýrafjarðargöngum lyki.


Tengdar fréttir

Héraðsbúar buðu lægst í Berufjörð

Tilboð í að ljúka gerð hringvegarins um Berufjarðarbotn voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag. Fjögur tilboð bárust og var það lægsta upp á 843 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×