Enski boltinn

Neville: Mourinho ekki tapað töfrunum en leikurinn gegn Liverpool verður risastór

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho hafði áhrif á leikinn í gær.
José Mourinho hafði áhrif á leikinn í gær. vísir/getty
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United sem nú starfar sem sparkspekingur Sky Sports, segir að José Mourinho, knattspyrnustjóri United, geti enn haft áhrif á leiki, til dæmis með skiptingum eins og sást í 2-0 sigri liðsins gegn West Ham í gærkvöldi.

United-liðið mætti til leiks í seinni hálfleik í stöðunni 0-0 en manni fleiri. Juan Mata kom inn á byrjun seinni hálfleiks og Marcus Rashford skömmu síðar en sá síðarnefndi lagði upp fyrra markið fyrir litla Spánverjann. Rashford hafði gríðarleg áhrif á leikinn, að mati Neville.

„Mourinho var ásakaður um það fyrir tveimur til þremur mánuðum síðan að vera búinn að tapa töfrunum og að hann gæti ekki lengur haft áhrif á leiki. Hann hafði mikil áhrif á þennan leik,“ sagði Neville á Sky Sports eftir leikinn í gærkvöldi.

„Hann er frábær stjóri. Það var virkilega flott að sjá hvernig hann notaði Rashford og lét hann halda breiddinni sem er svo mikilvægt þegar þú ert að spila á móti liði sem er bara með tíu manns inn á vellinum. Lingard og Mkhitaryan voru að koma of mikið inn á völlinn.“

„Þegar Rashford kom inn á hékk hann bara úti við hliðarlínuna og hafði mikil áhrif á leikinn. Það var líka flott hvernig Mourinho setti Carrick í miðvörðinn til að byrja með í seinni hálfleik. Hann átti sendinguna á Rashford sem bjó til fyrsta markið,“ sagði Neville.

Manchester United er búið að vinna sex leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni en er samt alltaf fast í sjötta sæti. Það er tíu stigum á eftir toppliði Chelsea sem á stórleik fyrir höndum gegn Tottenham annað kvöld.

„Bilið er líklega of mikið fyrir United úr þessu en næsti leikur í deildinni er stór, alveg risastór. Heimaleikur gegn Liverpool. Sá leikur mun skera úr hvað Manchester United gerir það sem eftir lifir leiktíðar,“ sagði Gary Neville.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×