Innlent

Manndráp í Mosfellsdal: Yfirheyrslur halda áfram í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla á vettvangi árásarinnar við Æsustaði í Mosfellsdal í vikunni.
Lögregla á vettvangi árásarinnar við Æsustaði í Mosfellsdal í vikunni. Vísir/Eyþór
Yfirheyrslur lögreglu vegna manndrápsins í Mosfellsdal síðastliðið miðvikudagskvöld standa nú yfir. Í samtali við Vísi í dag segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins, að lögregla hafi hafið störf snemma í morgun.

„Það er raunverulega svosem ekkert nýtt að frétta af rannsókninni. Við byrjuðum yfirheyrslur í morgun og erum í því,“ segir Grímur.

Hann segir lögreglu ekki vilja gefa neinar upplýsingar um það sem fram fer í yfirheyrslunum.

„Við erum með sex sakborninga og viljum ekkert fjalla um það.“

Sex hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa orðið Arnari Jónssyni Aspar að bana, fimm karlmenn og ein kona. Enn er ekki ljóst hvort öll þau grunuðu beri jafnmikla ábyrgð en Grímur segir lögreglu nú reyna að átta sig á aðild hvers og eins í málinu. Þá segir Grímur að atburðarás manndrápsins sé að skýrast.

„Við höfum útlínurnar af atburðarás árásarinnar en erum nú að hnýta þá enda sem þarf að hnýta.“

Hann segir enn ekkert liggja fyrir um ástæður að baki árásinni. Þá segir Grímur dánarorsök þess látna ekki liggja endanlega fyrir.

Yfirheyrslur munu halda áfram frameftir degi.


Tengdar fréttir

Reyndu að samræma framburð

Sakborningunum í morðmálinu í Mosfellsdal ber öllum saman í einu veigamiklu atriði við yfirheyrslur. Framburður þeirra er að öðru leyti á reiki. Búið var að velja nafn á nýfædda dóttur hins látna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×