Innlent

Ritstjóri Stundarinnar segir staðhæfingu Bjarna í Fréttablaðinu ranga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Jón Trausti Reynisson ritstjóri Stundarinnar.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Jón Trausti Reynisson ritstjóri Stundarinnar. vísir/ernir/heiða
Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, hefur sent fréttastofu áréttingu vegna staðhæfingar Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, þess efnis í Fréttablaðinu í dag að Stundin hafi í fréttaflutningi sínum af viðskiptum Bjarna fyrir hrun sagt félagið Hafsilfur hafa verið í eigu hans. Bjarni sagði þessa staðhæfingu Stundarinnar ranga þar sem Hafsilfur var í eigu föður hans.

„Þeir segja að ég hafi átt félagið. Það er rangt,“ sagði Bjarni í Fréttablaðinu í dag.

Í áréttingu Jóns Trausta segir að Stundin hafi hvergi haldið því fram að Hafsilfur hafi nokkurn tímann verið í eigu Bjarna. Þess vegna sé staðhæfing hans í Fréttablaðinu í dag röng en hér á eftir fer árétting Jóns Trausta:

„Forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins staðhæfir í viðtali við Fréttablaðið í dag að Stundin hafi ranglega sagt að félagið Hafsilfur ehf, sem tók yfir 50 milljóna króna kúlulán hans, hafi verið í hans eigu. Þessi fullyrðing um fréttaflutning Stundarinnar er röng. Stundin hefur hvergi haldið því fram að Hafsilfur hefði nokkurn tímann verið í eigu Bjarna Benediktssonar. Félagið var í eigu föður hans, Benedikts Sveinssonar, líkt og kemur fram í umfjöllun Stundarinnar. Hins vegar kom fram í umfjöllun Stundarinnar að starfsmenn Glitnis hafi rætt sín á milli um Hafsilfur sem félag Bjarna Benediktssonar og hann hafi beitt sér fyrir hönd félagsins í samskiptum við bankann.

Rétt er að taka fram að ekki hefur verið bent á neitt rangt í umfjöllun Stundarinnar um viðskipti núverandi forsætisráðherra og skyldmenna hans í aðdraganda hrunsins, þegar hann gengdi þingmennsku og kom sérstaklega að málefnum bankans sem kjörinn fulltrúi.

Í ljósi þess að sett hefur verið lögbann á Stundina og henni gerð óheimil öll efnisleg umfjöllun byggð á gögnum úr Glitni mun Stundin ekki geta notast við þau til að svara frekar efnislegum athugasemdum forsætisráðherra.“


Tengdar fréttir

Ritstjóri segir Bjarna að líta í eigin barm

Forsætisráðherra svarar spurningum um fréttir Stundarinnar sem hann hefur ekki viljað svara Stundinni um. Bjarni Benediktsson segir öll sín viðskipti við Glitni standast skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×