Viðskipti innlent

Bandarískir vogunarsjóðir kæra úrskurð ESA

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
ESA telur að greiðslujöfnunarvandi Íslands hafi ekki verið leystur.
ESA telur að greiðslujöfnunarvandi Íslands hafi ekki verið leystur. vísir/valli
Tveir bandarískir vogunarsjóðir hafa áfrýjað ákvörðun ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, þess efnis að íslensk lög um eign á aflandskrónum og losun fjármagnshafta séu í samræmi við EES-samninginn, til EFTA-dómstólsins. Mbl.is greinir frá þessu.

Sjóðirnir leituðu á náðir ESA í júní fyrra vegna þess að þeir töldu löggjöfina í ósamræmi við EES-sáttmálann. „Kvartanirnar byggðust á því að rök íslenskra stjórnvalda og tilvísun í verndarsjónarmið eigi sér ekki stoð miðað við núverandi efnahagsástand á Íslandi,” segir á vef ESA.

Sjá einnig: Lög um aflandskrónur standast reglur ESA

Úrskurður ESA var kveðinn upp í nóvember síðastliðnum en í honum sagði jafnframt að í sérstökum tilfellum er ríkjum heimilt að innleiða efnahags- og peningastefnu sem miðar að því að yfirstíga efnahagsþrenginga. „Telur ESA að aðgerðir stjórnvalda falli innan þeirrar heimildar,“ segir í úrskurðinum.

Þar segir jafnframt að ESA telji að greiðslujöfnunarvandi Íslands hafi ekki verið leystur og ekki sé öruggt hvort afnám hafta hér á landi hefði í för með sér óstöðugleika.

Bloomberg fjallaði um málið í dag en þar kemur fram að eignir sjóðanna hér á landi nemi milljónum dala en fjármagnshöft geri það að verkum að ekki er hægt að hrófla við fjármunum sjóðanna.


Tengdar fréttir

Lög um aflandskrónur standast reglur ESA

Íslensk stjórnvöld brutu ekki reglur um EES samninginn með lögum um eign á aflandskrónum. Þetta er niðurstaða ESA sem hefur lokið athugunum á tveimur málum vegna tveggja kvartana sem bárust í júní. ESA telur lögin vera í samræmi við EES-samninginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×