Viðskipti innlent

Geta selt Símabréfin

Haraldur Guðmundsson skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans, keypti bréf í fjarskiptafyrirtækinu en má nú selja þau.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, keypti bréf í fjarskiptafyrirtækinu en má nú selja þau. vísir/pjetur
Fjárfestahópurinn sem keypti fimm prósenta hlut í Símanum í umdeildri sölu Arion banka í ágúst 2015 getur nú selt bréfin. Söluhömlum var aflétt 1. janúar en við opnun markaða þann dag nam gengi hlutabréfa Símans 3,13 krónum. Virði þeirra hafði þá hækkað um 24 prósent síðan hópurinn keypti þau á genginu 2,518 fyrir 1.215 milljónir króna. Gátu meðlimir hans því selt öll fimm prósentin á 1.510 milljónir króna þegar söluhömlunum var aflétt.  

Viðskiptafélagarnir Sigurbjörn Þorkelsson, Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson eiga 48 prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu L1088 ehf. sem heldur utan um eign fjárfestahópsins í fjarskiptafyrirtækinu. Orri Hauksson, forstjóri Símans, og Gunnar Fjalar Helgason, yfirmaður stefnumótunar og stjórnunar hjá Símanum, eru skráðir fyrir 16,5 prósentum. Félagið Íshóll ehf. er þriðji stærsti eigandi L1088 með 15,6 prósenta hlut. Það er í eigu Stefáns Ákasonar, fyrrverandi forstöðumanns skuldabréfamiðlunar Kaupþings. Bertrand Kan, hollenskur fjárfestir og stjórnarmaður í Símanum, átti 6,38 prósent. Önnur bréf félagsins voru í eigu innlendra og erlendra fjárfesta sem tóku þátt í kaupunum. Arion banki var harðlega gagnrýndur fyrir söluna enda fékk hópurinn að kaupa bréfin í lokuðu söluferli.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×