Enski boltinn

Krísufundur Henderson hafði góð áhrif á Liverpool-liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Henderson og Jürgen Klopp eftir sigurinn á Tottenham.
Jordan Henderson og Jürgen Klopp eftir sigurinn á Tottenham. Vísir/Getty
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, segir að slök byrjun liðsins á árinu sé leikmönnum liðsins að kenna

Henderson segir að hann og félagar hans hafi skuldað knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp og stuðningsmönnunum félagsins  leik eins og þann á móti Tottenham um helgina sem Liverpool vann sannfærandi 2-0.

Fram að honum hafði Liverpool leikið tíu leiki á árinu 2017, ekki unnið deildarleik,  fallið út úr tveimur bikarkeppnum og misst sæti sitt meðal fjögurra efstu í fyrsta sinn síðan í september.

Jordan Henderson boðaði alla leikmenn á fund á fimmtudaginn var þar sem menn hreinsuðu loftið og fóru yfir stöðuna. Það hafði greinilega góð áhrif því liðið svaraði með 2-0 sigri á einu besta liði ensku úrvalsdeildarinnar.

„Við sem leikmenn verðum að taka ábyrgðina en okkur líður eins og við höfum brugðist okkur sjálfum, stjóranum og stuðningsmönnunum,“ sagði Jordan Henderson í viðtali við Sky Sports.

„Frammistaðan á móti Spurs bætir ekki upp fyrir allt saman en þetta er byrjunin og skref í rétta átt. Við verðum að byggja ofan á þessa frammistöðu og halda áfram,“ sagði Henderson.

„Við verðum að standa saman. Þetta var erfiður tími og við náðum ekki að vinna leik í langan tíma. Frammistaða okkar var ekki góð en menn verða að halda hópinn og halda trúnni. Mér fannst við gera það,“ sagði Henderson.

„Mér fannst allir sína góðan karakter á móti Tottenham og nú verðum við að halda okkur stöðugum. Við höfum mikla hæfileika í liðinu, frábært hugarfar og góðan karakter. Það dugar samt lítið að segja þetta því það er undir okkur komið að sýna það og sanna það sem eftir lifir tímabilsins,“ sagði Henderson.

Það er rólegt hjá Liverpool-liðinu á næstunni en liðið spilar ekki fyrr en 27. febrúar á móti Leicester City. Liðið mun nýta tímann með því að fara í æfingaferð til La Manga á Spáni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×