Körfubolti

„Hann gerir ein­hvern veginn alla í kringum sig betri“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ægir Þór fyrir miðju ásamt liðsfélögum sínum.
Ægir Þór fyrir miðju ásamt liðsfélögum sínum. Vísir/Diego

„Þetta er rosalega breytt lið en Ægir Þór Steinarsson er þarna enn og Ægir var besti maður vallarins,“ sagði þáttastjórnandinn Stefán Árni Pálsson þegar Körfuboltakvöld fór yfir sigur liðsins á Val í 1. umferð Bónus deildar karla.

Stjarnan vann frábæran sigur á Íslandsmeisturum Vals þrátt fyrir að vera með nýjan þjálfara og mikið breytt lið. Var það „gamla brýnið“ Ægir Þór sem fór fyrir Stjörnumönnum í leiknum.

„Hann er stórkostlegur í körfubolta, hann er alltaf í botni, bæði varnar- og sóknarlega. Það skiptir engu máli hvort hann sé að skora mikið eða ekki, hann er á fullu. Hann gerir einhvern veginn alla í kringum sig betri,“ sagði Jonni – Jón Halldór Eðvaldsson – sérfræðingur þáttarins. Hann hélt svo áfram að dásama Ægi Þór.

„Svo er þetta ótrúlega flott sál og er að hjálpa strákunum sem eru með sér í liði. Þetta er ómetanlegt. Ekki að ástæðulausu að þessi gæi er búinn að vera atvinnumaður út í heimi í mörg ár og Stjarnan sé að leggja ofuráherslu á að halda honum. Sennilega sá leikmaður sem ég væri fyrstur til að velja í liðið mitt af íslenskum leikmönnum.“

Lofræðu Jonna sem og klippum úr leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: „Hann gerir einhvern veginn alla í kringum sig betri“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×