Skoðun

Svart lax­eldi

Bubbi Morthens skrifar

Hvers vegna ráða eldismenn fyrrverandi þingmann og forseta Alþingis sem talsmann sinn? Ég held ég viti svarið. Þetta er þungavigtarmaður, klár og duglegur maður úr innsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins sem hefur aðgang að öllu sem þarf að hafa aðgang að. Þetta er skiljanlegt og hefðbundið val ef þannig má taka til orða þegar menn vilja tryggja sér aðgang að því sem skiptir máli. Við sem viljum vernda íslenska laxastofninn höfum ekki þennan aðgang að kerfinu sem eldismenn virðast nú þegar hafa.



Hvað má og hvað má ekki?

Það er sorglegt til þess að vita að Norðmenn geti komið hingað og gert það sem má ekki lengur heima hjá þeim.



Laxeldisfyrirtækið Arctic Sea Farm hefur sent Skipulagsstofnun matsáætlun vegna 8.000 tonna laxeldis í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Fyrirtækið vill fá leyfi til að nota norskan laxastofn til ræktunar á Íslandi en slíkt er bannað í Noregi. Lögin þar í landi kveða á um að óheimilt sé að flytja inn eða nota erlenda laxastofna vegna mikillar hættu á erfðamengun.



Svart hér en grænt í Noregi

Norway Royal Salmon hefur nú þegar yfir að ráða 10 grænum eldisleyfum heima fyrir en slík leyfi eru háð þeim skilyrðum að eingöngu má nota geldfisk til eldis. Hrikalegt ástand laxastofna í Noregi vegna erfðamengunar frá norsku laxeldi hefur leitt til þess að fyrirtæki fá ekki viðbótarleyfi til að ala frjóan lax í norskum fjörðum. Þetta norska fyrirtæki ætlar hins vegar að hagnast á eldi frjórra laxa í sjókvíum hér við land með þekktum afleiðingum fyrir hinn villta íslenska laxastofn. Norway Royal Salmon er tilbúið til að stunda svart eldi hér við land meðan það stundar grænt eldi heima fyrir. Notkun geldstofna ryður sér til rúms í Noregi og ætti að vera skilyrði fyrir því að leyfa norskan lax hér við land.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×