Innlent

Gera ráð fyrir að hefja starfsemi veturinn 2019

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri Rauðakambs
Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri Rauðakambs vísir/stefán
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum í gær lýsingu að deiliskipulagi fyrir lóð fyrir ferðaþjónustu við Reykholt í Þjórsárdal. Þar hyggst félagið Rauðikambur byggja upp baðaðstöðu, gistingu og veitingaþjónustu.

Lýsingin fer nú fyrir skipulagsnefnd uppsveitanna í Árnessýslu og að fengnu samþykki hennar verður hún auglýst til kynningar.

Sveitarstjórnin ákvað í júní að ganga til samninga við Rauðakamb um uppbygginguna og standa þær viðræður enn yfir. Rauðikambur hefur til umráða 2.500 fermetra lóð en félagið hefur óskað eftir stærra landi.

Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri og einn eigenda Rauðakambs, segir standa til að halda opinn íbúafund síðar í ágúst og kynna þar hugmyndir félagsins fyrir heimamönnum. Til stendur að reisa ferðaþjónustuna við gömlu Þjórsárdalslaugina sem verður fjarlægð.

Hann segir áætlanir félagsins gera ráð fyrir að starfsemi geti hafist veturinn 2019 til 2020. Á meðal annarra þátttakenda í verkefninu er félagið Íslenskar heilsulindir, dótturfélag Bláa lónsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×