Viðskipti innlent

Hlutabréf Icelandair lækkað um 40%

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Félagið birti uppgjör fyrir annan fjórðung ársins í lok síðustu viku.
Félagið birti uppgjör fyrir annan fjórðung ársins í lok síðustu viku. vísir/daníel
Gengi hlutabréfa í Icelandair Group hefur lækkað um fjörutíu prósent í verði það sem af er ári. Bréfin féllu um 3,3 prósent í verði í rúmlega 560 milljóna króna viðskiptum í gær, en alls hefur gengi bréfanna fallið um tæp sextán prósent síðustu sjö daga.

Eftir miklar hækkanir á hlutabréfaverði félagsins á árunum 2010 til 2016, þar sem bréfin meira en tífölduðust í verði, hefur farið að síga á ógæfuhliðina hjá félaginu. Hafa bréfin lækkað um 37 prósent í verði eftir að félagið birti kolsvarta afkomuviðvörun í byrjun febrúarmánaðar þar sem varað var við því að EBITDA-hagnaður – afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir – myndi dragast saman um þrjátíu prósent á árinu.

Félagið birti uppgjör fyrir annan fjórðung ársins í lok síðustu viku, en afkoma félagsins dróst saman um 57 prósent á milli ára, aðallega vegna lægri meðalfargjalda og neikvæðra gengisáhrifa vegna styrkingar krónunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×