Menning

Gísli Örn hafnaði boði um að setja upp söngleik um Amy Winehouse

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Faðir Amy Winehouse, Mitch Winehouse, bað Gísla Örn Garðarsson um að leikstýra söngleik um Amy árið 2015.
Faðir Amy Winehouse, Mitch Winehouse, bað Gísla Örn Garðarsson um að leikstýra söngleik um Amy árið 2015. Vísir/Ernir/Getty
Leikarinn og leikstjórinn Gísli Örn Garðarson hafnaði boði Mitch Winehouse, föður söngkonunnar Amy Winehouse, um að leikstýra söngleik um Amy sem lést árið 2011.

Gísli Örn var gestur Sólmundar Hólm og Viktoríu Hermannsdóttur í Rás 2 í morgun. Í þættinum sagði Gísli frá því að árið 2015 hafi faðir Amy Winehouse, Mitch Winehouse, beðið hann um að leikstýra söngleik um dóttur sína.

Með söngleiknum vildi Mitch leiðrétta ýmislegt sem kom fram í heimildarmyndinni Amy, sem gefin var út árið 2015 og fjallaði um ævi, störf og andlát söngkonunnar. Myndina sagði Gísli ekki hafa komið vel út fyrir Mitch.

„Hún var náttúrulega rosalega óhagstæð honum, pabba hennar. Hann kemur eiginlega út í þeirri mynd sem maðurinn sem hafi nánast klárað líf hennar,“ sagði Gísli á Rás 2 í morgun.



Mitch WInehouse sést hér með styttu af dóttur sinni Amy. Hulunni var svipt af styttunni í London árið 2014, þremur árum eftir dauða hennar.Vísir/Getty
Hefði verið geggjað

Símtalið frá Mitch Winehouse barst Gísla þegar hann var við tökur á kvikmyndinni Eiðnum eftir Baltasar Kormák. Mitch hringdi í Gísla í gegnum Skype og sagði að allt sem kom fram um hann í heimildarmyndinni hefði verið rangt. Mitch þvertók fyrir að hafa valdið dauða dóttur sinnar og að þeirri hugmynd þyrfti að kollvarpa.

„Þá var hann að biðja mig að leikstýra söngleik sem hann ætlaði að vera eins og skuggi yfir og passa að þetta yrði eins og honum finnst þetta eigi að vera,“ sagði Gísli.

Gísli afþakkaði þó boðið en sagði að það hefði óneitanlega verið geggjað að gera söngleik um Amy Winehouse – að því gefnu að pabbi hennar hefði ekki ráðið för. Þá vissi Gísli ekki til þess að umræddur söngleikur væri nokkurs staðar á dagskrá.


Tengdar fréttir

Bregður sér í hlutverk Winehouse

Bryndís Ásmundsdóttir söng-og leikkona bregður sér í hlutuverk Amy Winehouse í kvöld á Café Rósenberg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.