Innlent

Eyþór Arnalds verður gestafyrirlesari hjá Sigmundi Davíð

Atli Ísleifsson skrifar
Eyþór Arnalds.
Eyþór Arnalds. Vísir/Ernir
Eyþór Arnalds, sem nýverið eignaðist rúmlega fjórðungs hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins, verður gestafyrirlesari á fyrsta fundi Framfarafélagsins á morgun. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, tilkynnti um stofnun Framfarafélagsins fyrr í vikunni.

Eyþór mun flytja erindi undir heitinu „Framtíðin bíður ekki eftir okkur“ þar sem hann mun velta fyrir sér hvernig tækniþróun og ný tækifæri muni umbylta daglegu lífi fólks og hvernig við megum búa okkur best undir þær grundvallarbreytingar sem fyrirsjáanlegar séu á næstu árum á helstu innviðum samfélagsins.

Sigmundur Davíð kynnti dagskrá fyrsta fundarins á Facebook-síðu sinni síðdegis í dag. Þar kemur fram að Anna Kolbrún Árnadóttir verði fundarstjóri, en hún er formaður Landssambands framsóknarkvenna.

Sigmundur Davíð, sem titlaður er formaður Framfarafélagsins, mun halda fyrsta erindið – „Stjórnmál á áhugaverðum tímum“. Segir þar að stjórnmál séu að taka grundvallarbreytingum. „Hvað veldur og hvers er að vænta? Hvernig eru ákvarðanir sem varða hagsmuni almennings teknar nú og hvernig verður samfélögum stjórnað í framtíðinni,“ eru spurningar sem Sigmundur Davíð hyggst velta fyrir sér.

Sigmundur sagði fyrr í vikunni að Framfarafélagið væri vettvangur til að virkja fólk sem þekki til á ýmsum og fjölbreyttum sviðum. Sagði hann að Framsóknarflokkinn væri ekki lengur sá vettvangur fyrir sig. „Það er ekki lengur tækifæri fyrir mig að hafa Framsóknarflokkinn sem þennan vettvang, ekki að sinni,“ sagði Sigmundur Davíð.


Tengdar fréttir

Segir félagið ekki nýjan stjórnmálaflokk

"Nei, ég er ekki að stofna nýjan flokk,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, aðspurður en hann boðaði í gær stofn­un nýs fé­lags, Fram­fara­fé­lags­ins.

Sigmundur Davíð stofnar nýtt félag

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur tilkynnt um stofnun nýs félags, Framfarafélagsins, sem á að skapa öflugan vettvang fyrir frjálsa umræðu, fræðslu og framsetningu hugmynda og lausna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×