Lífið

Lífsstílsbloggarar selja fötin sín til styrktar Bleiku slaufunni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Bloggararnir á Glam.is ætla að styrkja árlega eitthvað gott málefni.
Bloggararnir á Glam.is ætla að styrkja árlega eitthvað gott málefni.
„Þetta verður allt hræódýrt,“ segir Ásdís Guðný Pétursdóttir í samtali við Vísi. Stelpurnar sem skrifa á bloggsíðuna Glam.is standa nú fyrir söfnun fyrir Bleiku slaufuna. Ásdís er einn stofnanda síðunnar en hún segir að þeim sé mjög mikilvægt að styrkja flott málefni.

„Við verðum í Kolaportinu 8.október að selja flíkur og allt sem við fáum fyrir þær setjum við í sjóðinn.“

Vinkonurnar ætla að styrkja eitt málefni á ári en síðan var stofnuð í febrúar á þessu ári. Þær eru með söfnunarreikning en svo bætist inn á hann allt það sem safnast í Kolaportinu. Fyrir hverja 10.000 krónur sem safnast ætla þær að takast á við skemmtilega áskorun

„Við ákváðum að hafa þessar áskoranir svo fólk myndi vilja styrkja okkur, þetta gerir söfnunina meira spennandi.“

Ásdís Guðný Pétursdóttir er ein þeirra sem ætlar að selja fötin sín í Kolaportinu til styrktar Bleiku slaufunniAðsent
Ásdís segir að ótrúlega margir ætli að styrkja söfnunina og mæta í Kolaportið. Fólkið í kringum þær sé líka duglegt að senda þeim hugmyndir af áskorunum.

„Krabbameinsfélagið lætur okkur líka fá slaufur og borða til þess að selja í básnum.“

Ásdís lýsir síðunni þeirra sem „Mömmu-lífstílsbloggi“ en með Ásdísi blogga þær Andrea Ísleifs, Emma Soffía, Karen Helga, Selma Blöndal og Sunna Ýr. Þær taka allar þátt í söfnuninni í Kolaportinu. Þær stofnuðu styrktarreikning á kennitölu Ásdísar fyrir þá sem vilja leggja söfnuninni lið en komast ekki á fatasöluna í Kolaportinu. Kennitalan er 010793-3009 og reikningsnúmerið 0370-13-001506.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×