Fangi sem fluttur var á sjúkrahús á laugardag eftir sjálfsvígstilraun í fangelsinu á Akureyri lést í gær.

„Afstaða hefur um árabil gert alvarlegar athugasemdir við stöðu sálfræði- og geðlæknaþjónustu í fangelsunum,“ segir í tilkynningu félagsins. Ráðherra er krafinn um úrbætur.
„Það er okkar mat að sálfræðingar stofnunarinnar þurfa að vinna í nánum tengslum við fanga og fangaverði en ekki í höfuðstöðvum fangelsismálastofnunar á Seltjarnarnesi, því þar gerast ekki hlutirnir.“
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, segir mikilvægt að gera bragarbót á stöðu fangelsismála.
„Eins og staðan er núna eru margir fangar fársjúkir. Við eigum að sjá sóma okkar í því að sinna fólki með þennan tvíþætta vanda, fíknivanda og geðsjúkdóma. Margir fangar í dag eiga frekar heima á sjúkrastofnunum en í fangelsi. Þetta þurfum við að laga.“

„Ef vilji er fyrir hendi geta fangar tekið eigið líf. Í klefum sínum eru þeir með sjónvörp, eigin fatnað, rúmföt og handklæði og hvaðeina,“ segir Guðmundur.
Andlátið í gær er nú til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.