Viðskipti innlent

Fengu kauprétt fyrir milljarða lánin til Havila

Haraldur Guðmundsson skrifar
Havila Shipping hefur glímt við mikla rekstrarörðugleika síðan olíuverð fór að hrynja á seinni hluta árs 2014.
Havila Shipping hefur glímt við mikla rekstrarörðugleika síðan olíuverð fór að hrynja á seinni hluta árs 2014.
Arion banki fékk einungis fimmtán prósent upp í 3,8 milljarða króna lán sitt til Havila Shipping ASA, og kauprétt á 11,6 prósenta hlut í norska skipafélaginu, þegar fjárhagslegri endurskipulagningu þess lauk fyrir rúmri viku. Íslandsbanki, sem lánaði Havila 1,7 milljarða króna, fékk þá kauprétt á 6,54 prósentum til viðbótar við 3,68 prósenta hlut í fyrirtækinu. Skipafélaginu var forðað frá gjaldþroti í lok nóvember í fyrra en ljóst er að bankarnir tveir töpuðu miklu á lánveitingunum.

Kaupréttur Arion banka er fyrir 158 milljónum hluta í fyrirtækinu á genginu 0,156 norskar krónur. Eignarhluturinn er því metinn á 24,6 milljónir norskra eða 316 milljónir króna. Bankinn má nýta sér kaupréttinn að tveimur árum liðnum og fram að janúar 2022. Lánið til Havila var veitt í júlí 2014 og nam 300 milljónum norskra króna eða 3,8 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.

Íslandsbanki lánaði Havila 130 milljónir norskra króna í árslok 2014. Bankinn tók þá þátt í 475 milljóna norskra króna sambanka­láni með

Sparebank1 SMN í Noregi. Ólíkt láni Arion banka var meirihluti 1,7 milljarða króna krafna Íslandsbanka á norska fyrirtækið tryggður með veðum í eignum Havila.

„Bankinn er mjög ánægður með það að fjárhagsleg endurskipulagning Havila hafi verið kláruð. Komið var í veg fyrir frekara tjón með þessum samningum á milli kröfuhafa og eigenda Havila. Havila mun þar af leiðandi vera áfram í viðskiptum við Íslandsbanka en til viðbótar þá er bankinn nú orðinn hluthafi með 3,68 prósenta eignarhlut,“ segir í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Markaðarins. Í henni var einnig spurt um áætlað tap bankans á lánveitingunni og því svarað að niðurstaðan hafi verið „ásættanleg“.

„Íslandsbanki fékk kauprétt í Havila en það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir einhver ár hvort bankinn mun nýta sér þessi réttindi.“

Arion banki réðst í lok árs 2015 í verulega varúðarniðurfærslu á lánum til erlendra fyrirtækja í þjónustustarfsemi tengdri olíuleit. Greint var frá ákvörðuninni í ársreikningi bankans en ekki tilgreint sérstaklega hversu mikið útlánin til Havila voru færð niður. Lán Íslandsbanka til Havila var einnig fært niður í fyrra en bankinn hefur ekki viljað upplýsa um upphæð niðurfærslunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×