Erlent

Kosið um forsetaræði í Tyrklandi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Tayyip Erdogan ávarpar samkomu í Kastamonu í Tyrklandi, 22. mars 2017.
Tayyip Erdogan ávarpar samkomu í Kastamonu í Tyrklandi, 22. mars 2017. Vísir/AFP
Í dag ganga Tyrkir til kosninga í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sem munu auka völd Recep Tayyip Erdogan forseta landsins verulega gangi þær eftir og munu í reynd formlega afnema lýðræði í landinu í núverandi mynd.

Stjórnarskrárbreytingarnar fela í sér að embætti forsætisráðherra verður lagt niður og völd þingsins verða minnkuð verulega og tekið verður upp eiginlegt forsetaræði. Embætti forseta mun hafa forræði á fjárlögum tyrkneska ríkisins og þar með ríkisútgjöldum. Þá mun forsetinn hafa vald til að tilnefna bæði dómara og saksóknara. Þannig verður dómsvaldið í landinu veikt verulega.

Feneyjarnefndin, sem er ráðgefandi stofnun Evrópuráðsins í málefnum er varða stjórnskipun ríkja, hefur gagnrýnt tillögurnar og sagt þær mikið skref aftur á bak. Þannig muni ólíkir handhafar ríkisvaldsins ekki lengur hafa nauðsynlegt tilsjón og taumhald (e. checks and balances) með hvor öðrum eins og almennt tíðkast þegar þrígreining ríkisvaldsins er annars vegar.

Leikurinn er ójafn í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. Áróður hefur dunið á almenningi úr öllum áttum um að segja já í atkvæðagreiðslunni í dag. Economist greinir frá því að af 168,5 klukkutíma umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðsluna á sautján sjónvarpsstöðvum í Tyrklandi í mars höfðu stuðningsmenn já og þar með stuðningsmenn Erdogan fengið 90 prósent af útsendingartímanum. 

Þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram aðeins tæpu ári eftir misheppnaða valdaránstilraun í landinu. Um það bil 50 þúsund manns sitja nú fangelsi í Tyrklandi á grundvelli upploginna saka, bendlaðir við valdaránið með beinum eða óbeinum hætti. Þá hafa 100 þúsund manns misst vinnuna og þar með lífsviðurværið af sömu ástæðu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×