Erlent

Tyrkneska þjóðin greiðir atkvæði um aukin völd forsetans

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Kjörstaðir voru opnaðir í morgun. Búast má við fyrstu niðurstöðum seint í kvöld.
Kjörstaðir voru opnaðir í morgun. Búast má við fyrstu niðurstöðum seint í kvöld. vísir/afp
Kjörstaðir voru opnaðir í Tyrklandi í morgun þar sem þjóðin mun greiða atkvæði um breytta stjórnarskrá. Breytingin mun koma til með að auka völd Tyrklandsforseta þannig að hann fari með framkvæmdavaldið en ekki forsætisráðherrann.

Skoðanakannanir benda til að breytingin verði samþykkt með naumum meirihluta. Tillagan er frá forsetanum sjálfum, Recep Tayyip Erdogan, komin, en hann hefur beitt sér fyrir frekari völdum frá misheppnuðu valdaráni hersins í júlí í fyrra. Þá geta breytingarnar þýtt að Erdogan verði á valdastóli allt til ársins 2029.

Völdin færast nær alfarið til forsetans

Með breytingunum mun forsetinn geta skipað ráðherra í ríkisstjórn, undirritað forsetatilskipanir, valið dómara í Hæstarétt og leyst þing landsins frá störfum. Þannig myndi forsetinn fara fyrir framkvæmdavaldinu í stað forsætisráðherrans, og í raun gera embætti forsætisráðherrans nánast óþarft.

Stuðningsmenn tillögunnar segja að hún muni auðvelda ákvarðanatöku framkvæmdavaldsins. Breytingarnar séu mikilvægar á ólgutímum líkt og nú, þar sem kúrdískir aðskilnaðarsinnar, borgarastyrjöld í Sýrlandi og íslamskir hryðjuverkamenn ógni Tyrklandi.

Hinir andsnúnu óttast að breytingarnar muni leiða til of mikilla valda forsetans því engar hindranir verði lengur til staðar. Þá hefur stjórnarandstaðan sakað Erdogan um að vilja breyta stjórnkerfi landsins í „eins manns stjórnkerfi“.

Alls eru 55 milljón manna á kjörskrá á 167 þúsund kjörstöðum. Búast má við fyrstu tölum seint í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×