Innlent

Þrettán ára vinir fengu far með forsetanum af því mömmu seinkaði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strákarnir fengu að sjálfsögðu mynd af sér með forsetanum.
Strákarnir fengu að sjálfsögðu mynd af sér með forsetanum.
Sundferð vinanna Sölva Reys Magnússonar og Tristans Marra Elmarssonar í gær endaði með sögulegri heimferð. Ekki ómerkari maður en sjálfur forset Íslands, Guðni Th. Jóhannesson skutlaði félögunum heim úr Laugardalslaug af því að mömmu Tristans hafði seinkað. Mbl.is greindi fyrst frá.

Magnús Reyr Agnarsson, faðir Sölva, segir strákana þrettán ára svo sannarlega kunna að redda sér. 

„Þeir eru svolítið brattir þessir gæjar. Þeir redda sér!“ segir Magnús í samtali við Vísi.

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, móðir Tristans, lýsir því á Facebook hvernig strákarnir fóru að því að bjarga sér heim. Hún fékk einfaldlega símtal frá Tristan þar sem hann sagði: 

„Mamma, þú þart ekki að sækja mig í sund. Ég hitti Guðna forseta hér og sagði honum að þér seinkaði aðeins vegna þess að þú værir að hjálpa systur þinni að flytja. Hvort hann gæti nokkuð keyrt mig og vin minn heim.“

Guðni var staddur í Laugardalslaug þar sem Íslandsmótið í sundi fór fram um helgina. Var Guðni að veita verðlaun á mótinu.

Tristan spurði Guðna einfaldlega hvort hann gæti keyrt þá vinina heim. Guðni samþykkti það.

„Ég kom á forsetabílnum heim eftir smá stund,“ hefur Rakel eftir syni sínum. Fimm mínútum seinna komu drengirnir heim, á forsetabílnum, og þökkuðu Guðna kærlega fyrir farið.

Vinirnir tóku upp myndband í bílnum þar sem þeir ræddu við Guðna og spurðu hann spjörunum úr.

Magnús Reyr, faðir Sölva, segist hafa kosið Guðna í forsetakosningunum síðastliðið sumar. Þar fari maður sem sé svo sannarlega laus við allan hroka. Strákarnir hafi eðlilega verið rígmontnir af öllu saman. 


Tengdar fréttir

Apabindi forseta Íslands tekur við af fílabindinu

Apabindið sem Guðni Th. Jóhannesson bar við fyrstu opinberu heimsókn sína sem forseti Íslands vakti skemmtilega athygli. Fréttablaðið heyrði í forsetahjónunum og grennslaðist fyrir um apabindið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×