Innlent

Konur greiða meðlag í auknu mæli

Snærós Sindradóttir skrifar
Börn koma frá ólíkum fjölskyldum.
Börn koma frá ólíkum fjölskyldum. vísir/vilhelm
Konum sem greiða meðlag vegna barna sinna hefur fjölgað um 76 prósent frá aldamótum og hafa nú aldrei verið fleiri. Konur eru nú um sex prósent þeirra sem greiða meðlag vegna barna sinna.

Árið 2016 greiddu 727 konur meðlag samanborið við 409 árið 2001. Töluvert stökk var í hlutfalli kvenna á meðal meðlagsgreiðenda árið 2012 en þá fjölgaði konum um 125 á milli ára, og urðu 674 talsins. Síðan hefur konum á meðal meðlagsgreiðenda fjölgað jafnt og þétt.

Konur eiga þó ekkert í karla sem greiða meðlag en 10.989 karlar greiða meðlag á Íslandi, samkvæmt tölum frá Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu.
Á sama tíma hefur einstæðum feðrum fjölgað um tæplega 60 prósent. Árið 2016 voru þeir 1146 talsins en um aldamótin voru þeir 720 talsins. Einstæðum mæðrum hefur á sama tíma fjölgað um 22 prósent sem helst nokkurn veginn í hendur við mannfjöldaþróun en Íslendingum hefur fjölgað um 19 prósent frá aldamótum til ársins 2016, miðað við tölur frá Hagstofu Íslands.

„Þetta er svona eitt af fjölmörgu sem sýnir hvernig samfélagið er að breytast á margvíslegan hátt. Ef að fólk er í raun að skipta börnunum jafnt á milli sín þá hlýtur þetta að vera réttlátt en svo þarf auðvitað að taka tillit til launa og aðstöðu foreldra,“ segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.

„Meðlagið var tekið upp á sínum tíma, snemma á tuttugustu öldinni, til að tryggja mæðrum að þær hefðu nú eitthvað fyrir sig og börnin sín. Þær voru yfirleitt á miklu miklu lægri launum og margar mjög fátækar. Ég held að þetta beri vott um það að fólk sé í samkomulagi að skipta þessu á milli sín enda er þetta til að tryggja barninu betri aðbúnað.“

Bragi R. Axelsson, hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga, segir að stofnunin finni ekki mun á kvenkyns meðlagsgreiðendum og karlkyns þegar kemur að skilum. Um áramót hafi tólf konur fengið afskrifaða meðlagsskuld, að hluta eða í heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×