Innlent

Landsig við jarðhitavirkjanir vekur athygli

Svavar Hávarðsson skrifar
Þrjú teymi mældu 150 punkta auk mæligagna frá um 100 föstum mælistöðvum. Gæslan aðstoðaði þar sem þess þurfti með.
Þrjú teymi mældu 150 punkta auk mæligagna frá um 100 föstum mælistöðvum. Gæslan aðstoðaði þar sem þess þurfti með. Mynd/Landmælingar Íslands
Endurmæling Landmælinga Íslands (LÍ) sumarið 2016 á landshnitakerfi Íslands leiddi í ljós ummerki eldgosa og jarðskjálfta, en jafnframt eru áhrif af landnýtingu manna eins og í kringum jarðhitavirkjanir eftirtektarverð.

Landshnitakerfið hefur verið mælt tvisvar áður með GPS-tækni, fyrst árið 1993 og svo aftur árið 2004, en frá verkefninu segir í nýjustu ársskýrslu LÍ.

Guðmundur Valsson, mælingaverkfræðingur hjá LÍ, bendir á að frumniðurstöður mælinganna lágu fyrir í lok desember; landið rekur í sundur með mjög jöfnum hraða eða um einn sentimetra á ári í hvora átt – nokkuð sem lengi hefur verið vitað. Landshnitakerfið hefur verið mælt tvisvar áður með GPS-tækni, fyrst árið 1993 og svo aftur árið 2004 og frá síðustu mælingu má sjá hvar mest hefur gengið á í náttúru Íslands. Hreyfingar í kringum upptök Suðurlandsskjálftanna 2008 eru til dæmis allt aðrar en víðast hvar annars staðar á landinu.

Guðmundur Valsson
„Þetta voru 40 sentimetrar sem gliðnunin varð í skjálftunum á milli Selfoss og Hveragerðis,“ segir Guðmundur en hreyfingar norðan Vatnajökuls skera sig nokkuð úr við mælingarnar nú, en þar má merkja áhrif eldgossins í Holuhrauni 2014-2015. Má nefna gliðnun upp á 60 sentimetra við Kverkfjöll en talsverðar hæðarbreytingar hafa einnig orðið á þessu 12 ára tímabili á milli mælinga.

Þar má m.a. nefna ris á Vatnajökli og umhverfis hann og má leiða líkur að því að þar séu að koma fram áhrif þynningar jökulsins en einnig aukinnar kvikumyndunar undir honum. Mest mældist risið í Jökulheimum eða um 40 sentimetrar. Til samanburðar var risið þar á tímabilinu 1993 til 2004 helmingi minna.

„Það sem er merkilegt er að það virðist vera mikið landris í og við Vatnajökul almennt – sést það greinilega við Svínafell í Öræfum og nálægt Hala í Suðursveit, svo dæmi sé tekið,“ segir Guðmundur sem segir jafnframt áhugavert að skoða mikið landsig í kringum helstu jarðhitavirkjanir landsins – bæði við Hellisheiðarvirkjun og á Reykjanesi – en þar nemur sigið einum sentimetra á ári, eða 18 sentimetra síðan 2004 þegar það mældist mest.

„Ég skoðaði mælingar sem Orkustofnun gerði í kringum árið 2000 og þá var ekki þetta sig, sýndist mér. Það verður athyglisvert hvað gerist í Þeistareykjum eftir að vinnsla hefst þar, við erum með mælipunkt þar nálægt svo það er nærtækt.“

Hæðarbreytingar meðfram ströndinni vöktu einnig athygli vísindamanna, þar sem þær geta ýmist unnið með eða gegn áhrifum hækkandi sjávarborðs, en þær eru greinilegastar á Reykjanesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×