Innlent

Faldi tæpt kíló af kókaíni í líkama sínum í 90 pakkningum

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar.
Maðurinn var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar. Vísir/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann til fangelsisvistar í 18 mánuði fyrir að stórfellt fíkniefnabrot. Játaði maðurinn að hafa flutt samtals 878 grömm af kókaíni til landsins sem ætlað var til söludreifingar í ágóðaskyni. 

Fíkniefnin flutti maðurinn til landsins sem farþegi með flugi frá Brussel í Belgíu. Hann faldi fíkniefnin í líkama sínum í 90 pakkningum.

Maðurinn staðhæfði fyrir dómi að hann hefði ekki verið eigandi fíkniefnanna og að hann hafi eingöngu tekið að sér að flytja þau hingað til lands gegn þóknun. Var tekið mið af þeirri staðhæfingu mannsins við ákvörðun refsingar en þar var einnig lagt mat á dómaframkvæmd, magn fíkniefna og styrkleika þeirra.

Ákvað dómurinn að hæfileg refsing yfir manninum væri átján mánaða fangelsisvist en til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 13. janúar 2017.

Maðurinn var dæmdur til að greiða 1,1 milljón króna í sakarkostnað, þar af 463 þúsund krónur í þóknun til verjanda síns. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×