Innlent

Samþykkt að Strætó gangi lengur á kvöldin og á næturnar um helgar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í dag er það svo að Strætó hættir að ganga í kringum miðnætti, bæði á virkum dögum og um helgar.
Í dag er það svo að Strætó hættir að ganga í kringum miðnætti, bæði á virkum dögum og um helgar. vísir/pjetur
Umhverfis-og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í gær tillögur samgöngustjóra borgarinnar um að Strætó hefji kvöld-og næturakstur.

Á fundi ráðsins var annars vegar lagt fram minnisblað um kostnaðar-og ábatamat vegna akstursins og hins vegar minnisblað frá Landspítalanum en að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag hafði spítalinn óskað eftir því við borgina að Strætó myndi aka lengur.

Fjallað var um það í Fréttablaðinu á dögunum að árlegur kostnaður Landspítala vegna leigubílanotkunar starfsmana er í kringum hundrað milljónir. Breytingin gæti því sparað Landspítalanum umtalsverðar fjárhæðir á hverju ári.

Í dag er það svo að Strætó hættir að ganga í kringum miðnætti, bæði á virkum dögum og um helgar. Það er mismunandi eftir leiðum hvenær hann hættir að ganga en það er á bilinu milli klukkan hálftólf og hálfeitt.

Fyrir fólk sem vinnur vaktavinnu, eins og til dæmis starfsmenn Landspítalans, og vill nýta sér strætó getur það því reynst erfitt á kvöldin og næturnar. Þá eru dæmi þess að fólk fari fyrr úr bíó til að ná strætó heim að ógleymdu skemmtanalífinu í miðborg Reykjavíkur og þeim sem myndu kjósa að taka strætó af djamminu í stað leigubíls.

Samkvæmt samþykkt umhverfis-og skipulagsráðs mun Strætó ganga til eitt frá og með ágúst á þessu ári. Þá er áætlað að vagnar gangi frá hálftvö til hálffjögur um helgar, það er aðfaranótt laugardags og sunnudags. Samtals nemur kostnaðurinn á bilinu 180 til 190 milljónir króna, það er 120 til 130 milljónir króna vegna lengri kvöldaksturs og um 60 milljónir króna vegna næturaksturs.

Tillögunni var vísað til borgarráðs en umhverfis-og skipulagsráð samþykkti að sérfræðingar Strætó skyldu gera tillögur að næturakstri með 30 mínútna tíðni og meðal annars skoða hvort annað fargjald ætti að gilda þá.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×