Enski boltinn

Carrick hættir líklega í fótbolta ef hann fær ekki nýjan samning hjá United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michael Carrick að hætta?
Michael Carrick að hætta? vísir/getty
Michael Carrick hættir líklega í fótbolta ef hann fær ekki nýjan samning hjá Manchester United næsta sumar þegar núgildandi samningur hans rennur út.

Carrick, sem er 35 ára gamall, hefur verið í herbúðum Manchester United frá því 2006 þegar hann gekk í raðir félagsins frá Tottenham. Hann fékk nýjan eins árs samning síðasta sumar.

„Ég sé bara ekki fyrir mér að spila fyrir annað félag, svo sannarlega ekki á Englandi,“ sagði Carrick í viðtali við BBC í gær.

Tilkynnt var í gær að Carrick fær heiðursleik fyrir sín störf hjá Manchester United en þann fjórða júní mætir 2008-lið United stjörnuliði Michael Carrick.

Carrick er sá leikmaður í núverandi United-liði sem hefur verið lengst hjá félaginu á eftir Wayne Rooney en hann á að baki yfir 400 leiki á ellefu árum.

Carrick hefur á sínum ferli hjá United unnið ensku úrvalsdeildina fimm sinnum, enska bikarinn einu sinni, Meistaradeildina einu sinni og deildabikarinn þrívegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×