Enski boltinn

Þrjú rauð spjöld, sjálfsmark og misheppnað víti í toppslag í B-deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brighton stefnir hraðbyri upp í ensku úrvalsdeildina.
Brighton stefnir hraðbyri upp í ensku úrvalsdeildina. vísir/getty
Þrjú rauð spjöld fóru á loft þegar Brighton vann 2-1 sigur á Sheffield Wednesday í toppslag í ensku B-deildinni í kvöld.

Frakkinn Anthony Knockaert tryggði Brighton stigin þrjú þegar hann skoraði sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok. Með sigrinum náði Brighton tveggja stiga forskoti á Newcastle United á toppi deildarinnar.

Knockaert kom Brighton yfir á 34. mínútu en Lewis Dunk jafnaði metin fyrir Sheffield Wednesday þegar hann skoraði sjálfsmark á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Á 64. mínútu fengu gestirnir vítaspyrnu þegar Glenn Murray varði skot Glenns Loovens með hendinni innan vítateigs. Murray fékk rautt spjald að launum. Fernando Forestieri fór á punktinn en David Stockdale varði spyrnu hans.

Knockaert skoraði svo sigurmarkið á 85. mínútu. Fjörið var þó ekki á enda því Steven Fletcher og Sam Hutchinson, leikmenn Sheffield Wednesday, fengu báðir að líta rauða spjaldið undir lok leiksins. Það breytti þó engu um úrslitin. Lokatölur 2-1, Brighton í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×