Innlent

Ölvaður maður í stigagangi í Reykjavík taldi sig vera í þorpi út á landi

Birgir Olgeirsson skrifar
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Hari
Á sjötta tímanum í morgun barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um ölvaðan mann sem var kominn inn á stigagang í fjölbýlishúsi í austurbæ Reykjavíkur. Hafði maðurinn tekið í nokkra hurðahúna en þegar lögreglumenn ræddu við hann taldi hann sig í fyrstu staddan í þorpi út á landi.

Lögreglan segir manninn hafa fljótlega náð áttum og var honum ekið til síns heima í Reykjavík.

Um svipað leyti var karlmaður handtekinn vegna heimilisofbeldis í austurbæ Reykjavíkur en fram kemur í dagbók lögreglu að málið sé til rannsóknar.

Skömmu áður var tilkynnt um líkamsárás á Laugavegi og ræddi lögregla við málsaðila á vettvangi.

Það var mikið annríki hjá lögreglunni á sjötta tímanum í morgun því þá var einnig tilkynnt um bifreið sem var ekið á umferðarljós á Sæbraut. Skömmu síðar hlupu tveir menn frá bifreiðinni en þeir voru báðir handteknir í nágrenninu skömmu síðar eftir ábendingar frá vitnum. Þeir verða yfirheyrðir síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×