Umfjöllun og viðtöl: Fram - ÍR 24-32 | Auðvelt hjá ÍR-ingum

Viktor Örn Guðmundsson skrifar
Andri Helgason, leikmaður Fram.
Andri Helgason, leikmaður Fram. vísir/Stefán
ÍR unnu í kvöld sinn fyrsta leik síðan í 4. umferð er þeir rasskelltu andlausa Framara 32-24 í Safamýrinni. Staðan í hálfleik var 16-7 ÍR í vil en þetta var fyrsti leikurinn í 10. umferð Olís-deildar karla í handbolta sem lýkur svo annað kvöld.

ÍR-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru yfir á öllum tölum fyrri hálfleiks. Gríðarlega þéttur og hreyfanlegur varnarleikur gerði það að verkum að Fram var aðeins með 7 mörk skoruð þegar flautað var til hálfleiks.

Framarar virtust heillum horfnir sóknarlega, þeir áttu engin svör við útspili ÍR að klippa Arnar Birki út og einkenndist fyrri hálfleikur þeirra mikið af því að láta Sigurð Örn fá boltann sem átti að redda hlutunum.

Seinni hálfleikur byrjaði ekki vel fyrir Framara en Arnar Birki fékk 2 mínútna brotvísun og 4 mínútur í kjölfarið á því vegna mótmæla sem þýddi rautt spjald og þar með var allur botn dottinn úr þessu hjá Frömurum. ÍR gekk á lagið og átti mest 12 mörk á Fram um miðjan síðari hálfleikinn og sigurinn var aldrei í hættu.

Hrós á Bjarna Fritzson og hans leikmenn en þeir virtust miklu hungraðri í 2 stig í kvöld. Stemmingin var þeirra megin allan leikinn á meðan Framarar virtust andlausir, pirraðir og létu margt fara í taugarnar á sér.

Af hverju vann ÍR leikinn

Gríðarlega öflugur varnarleikur plús markvarsla í fyrri hálfleik skóp þennan sigur. Þeir voru mjög þéttir og hreyfanlegir ásamt því að hafa Grétar fyrir aftan sig sem var stórkostlegur í kvöld. Voru með yfirhöndina allan leikinn og sigurinn var aldrei í hættu.

Hverjir stóðu upp úr?

Allur varnaleikur ÍR í fyrri hálfleik stóð upp úr, fengu aðeins 7 mörk á sig. Grétar Ari var mjög öflugur í kvöld ekki aðeins í markinu heldur var hann einnig með þrjú mörk. Einnig má taka út Bergvin Þór sem stóð sig mjög vel í annars mjög góður ÍR liði í dag. Ekki hægt að taka úr marga hjá andlausu Fram liði en hrós í þeirra liði fær Lúðvík Arnkerlsson en hann gerði 6 mörk í liði Fram.

Hvað gekk illa?

Illa gekk hjá Fram að skora. Þeirra markahæsti og besti maður, Arnar Birkir var aðeins með 2 mörk í kvöld. Hann var tekinn úr umferð allan leikinn og Framarar virtust ekki eiga nein svör við því og fara inn í hálfleikinn með 7 mörk skoruð sem verður að teljast ansi dapurt.

Hvað gerist næst?

Framarar fara á nýja parketið í Eyjum og verða þeir að spýta all hressilega í lófana ef þeir ætla sér að ná úrslitum þar.

Breiðhyltingarnir fá Aftureldingu í heimsókn, fróðlegur leikur tveggja jafnra liða.

Bjarni: Frábær vörn í fyrri hálfleik skóp þennan sigur

„Frábær vörn í fyrri hálfleik og 7 mörk á okkur í fyrri hálfleik er bara geggjað, við náðum að sama skapi að spila ágætis sóknarleik þannig að heilt yfir var þetta fyrri hálfleikurinn sem skóp þennan sigur,” sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR.

„Þetta var bara góður leikur heilt yfir, ánægður með varnarleikinn og seinni bylgjuna líka, og það sem við lögðum upp gegn 5 1 vörninni þeirra heppnaðist ágætlega,” sagði Bjarni

Sigurinn var aldrei í hættu og spiluðu þeir nánast fullkominn leik í 45 mínútur en þá kom kafli þar sem Fram skoraði 5 mörk í röð

„Við gáfum aðeins of mikið eftir í 10 mín í seinni en náðum að pikka það upp seinustu 5 mín þannig að bara mjög got að koma hingað og ná í 2 stig.”

Guðmundur: Lykilmenn ekki að skila sínu

„Allt, menn gáfust bara upp eftir 10 mínútna leik, lykilmenn í mínu liði ekki að skila sínu, þeir þurfa að fara taka sig til í andlitinu og fara gera einhvað, þetta er bara ekki boðlegt að tapa á heimavelli fyrir framan fólkið okkar,” sagði Guðmundur Pálsson, þjálfari Fram, spurður út í hvað fór úrskeiðis hjá hans mönnum í kvöld.

Sóknarleikur Fram í vetur hefur verið borinn uppi af Arnari Birki en hann lék illa í kvöld, hann var tekinn úr umferð allan leikinn og skoraði Arnar aðeins 2 mörk á tæplega 40 mínútum.

 „Já, við vorum búnir að undirbúa okkur undir það, fengum ágætis færi til að byrja með en Grétar var að verja vel og það skýrist bara vegna hugarástands minna manna.

Ég biðst bara afsökunar á frammistöðunni í dag.”

Framarar fara næst til Vestmannaeyja í gríðarlega erfitt verkefni og verða þeir að eiga stórleik ætli þeir sér að fara heim með 2 stig

„Þetta er bara brekka, við verðum bara gíra okkur í næsta leik á nýja parketinu í Vestmannaeyjum og stríða þeim aðeins.”

Grétar Ari: Slógum þá út af laginu

„Það held ég ekki, kannski bestu 20 mínúturnar en ekki besti leikur,” sagði hinn hógværi markmaður ÍR-inga, Grétar Ari, í samtali eftir leik, en hann átti frábæran dag með 14 varða bolta sem voru mörg hver dauðafæri og víti ásamt því að skora þrjú mörk.

„Ég held við höfum slegið þá út af laginu með að taka Arnar úr umferð og hjá þeim vantaði leikmenn, þeir náðu bara ekki að leysa úr því og við áttum bara mjög góðan dag.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira