Innlent

Ferðalöngum reglulega meinuð för vestur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Dómsmálaráðherra segist ekki hafa fengið upplýsingar um málið og ekki sé víst að það heyri undir íslensk stjórnvöld.
Dómsmálaráðherra segist ekki hafa fengið upplýsingar um málið og ekki sé víst að það heyri undir íslensk stjórnvöld. vísir/gva
Það er ekki einsdæmi að fólki sé vísað úr flugvélum hér á landi og því meinað að fljúga til Bandaríkjanna. Juhel Miah, 25 ára kennari frá Swansea í Wales, lenti í því í að vera vísað úr flugvél Icelandair sem var á leið til Bandaríkjanna í Keflavík þann sextánda febrúar síðastliðinn.

„Það kemur fyrir annað slagið að einstökum farþegum er neitað um flug vegna tilmæla frá yfirvöldum. En í þessum tilvikum er flugfélagið ekki upplýst um ástæður þess,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fá flugfélög hér á landi af og til tilmæli frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum þar sem sagt er að stjórnvöld vilji ekki fá einstakling til landsins. Flugfélög fá ekki að vita ástæðuna. Slík tilmæli fékk Icelandair um Miah.

Þar sem flugfélög þurfa að fylgja ákveðnum skilyrðum til þess að fá að fljúga til Bandaríkjanna, sem og annarra landa, ber þeim að hlýða þessum tilmælum. Ella þyrftu þau að greiða stórar sektir.

Sjálfur veit Miah ekki ástæðu þess að honum var vísað frá borði. „Ég veit ekki hvers vegna mér var vísað úr vélinni. Kannski er það vegna þess að ég er múslimi. Ef enginn getur sagt mér ástæðuna fyrir þessu vil ég að einhver rétti upp hendi og biðjist afsökunar,“ sagði Miah í samtali við BBC í gær.

Hann sagði atvikið hafa orðið til þess að honum liði eins og hann væri smánaður. Þetta hefði samt ekki átt að hafa þau áhrif. Ég spurði margoft af hverju mér væri vísað úr fluginu en fékk engin svör. Allir litu á mig eins og ég hefði gert eitthvað af mér,“ sagði Miah.

Ólíklegt er að ástæðan sé tilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að meina ríkisborgurum sjö ríkja í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum að koma til Bandaríkjanna. Áfrýjunardómstóll felldi þá tilskipun úr gildi. Þar að auki er Miah eingöngu með breskan ríkisborgararétt.

Heimildir Fréttablaðsins herma að Miah hafi farið í gegnum vegabréfsskoðun athugasemdalaust. Þá hafi hann lent í handahófskenndu úrtaki og verið skoðaður nánar. Enn hafi engar athugasemdir verið gerðar. Þegar út í vél var komið hafi starfsmaður Icelandair hins vegar farið um borð og tilkynnt Miah um að hann fengi ekki að fara til Bandaríkjanna. Miah hafi brugðist hinn kurteisasti við og hlýtt tilmælum.

Í svari sinni við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns VG, á Alþingi í gær sagðist Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ekki hafa fengið upplýsingar um málið. „Mér sýnist ekki endilega víst að þetta mál heyri undir íslensk stjórnvöld,“ sagði hún og vísaði til þess að maðurinn væri breskur, ákvörðunin tekin af Bandaríkjamönnum. „Fáum við frekari upplýsingar mun ekki standa á mér að upplýsa um tilvik sem þessi ef þau gerast tíðari hér á íslenskri grundu.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×