Innlent

Gamla flugstöðin í Keflavík hverfur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, við gömlu flugstöðina í dag.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, við gömlu flugstöðina í dag. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Ákveðið hefur verið að rífa gömlu flugstöðina á Keflavíkurflugvelli og hefst niðurrif hennar strax eftir helgi. Flugskýli verður reist í staðinn. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Flugstöðin í Varnarstöðinni þjónaði sem aðalmillilandaflugstöð Íslendinga í aldarfjórðung, frá því snemma á sjöunda áratugnum og fram til ársins 1987 er Leifsstöð var opnuð. Þar hófst ferðin til útlanda, þar voru innritunarborðin og síðan tók við vegabréfaskoðun og vopnaleit.

Þarna hófst utanlandsferðin þegar gengið var inn í brottfararsalinn.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Fyrir innan var bandaríski herinn hins vegar búinn að breyta flestum innréttingum, en hann notaði flugstöðina þar til Varnarliðið fór. Í frétt Stöðvar 2 sýnir Friðþór Eydal, fulltrúi Isavia, hvar barinn var í flugstöðinni.  

„Þessi frægi þar sem Íslendingar vöndust á að drekka fyrsta bjórinn eldsnemma á morgnana,” segir Friðþór.

Friðþór Eydal sýnir hvar barinn var í gömlu flugstöðinni.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Barinn er löngu horfinn. Það er helst að eldri Íslendingar þekki aftur salinn þar sem menn fengu töskurnar og fóru í gegnum tollskoðun. Margir muna eftir glugganum á efri hæðinni þar sem sjá mátti flugvélarnar koma. 

En nú eru örlög hússins ráðin:

„Já, það verður rifið og niðurrifið hefst bara á allra næstu dögum og því á að vera lokið í mars,” segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

Vél Loftleiða séð af efri hæð gömlu flugstöðvarinnar um miðjan sjöunda áratuginn.Mynd/Úr myndinni Alfreð Elíasson og Loftleiðir.
Einhverjir spyrja kannski hvort ástæða hafi verið til að halda í húsið í ljósi sögulegs gildis. En Friðþór spyr á móti hver eigi þá að borga fyrir það.

En kom til greina að halda flugstöðinni, til dæmis fyrir innanlandsflug?

Guðjón kveðst ekki vita til þess að nein slík ósk hafi borist.

„Þetta hús hefur ekki verið notað síðan Varnarliðið fór. Svo er komin upp mygla á nokkrum stöðum í húsinu. Svo er það í rauninni, má segja, barn síns tíma.”

Flugstöðin var tekin í notkun árið 1949.Mynd/Isavia.
Flugvélar nýta enn stæðin fyrir utan gömlu flugstöðina. En núna þarf hún að víkja fyrir nýrri starfsemi. Reisa á flugskýli á staðnum, samkvæmt samþykktu deiliskipulagi, að sögn upplýsingafulltrúa Isavia. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×