Innlent

Viðreisnarfólk óánægt með Bjarna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Benedikt sagði á fundinum í kvöld að bæta þurfi vinnubrögð á Alþingi, þegar flokksmenn sögðust ósáttir við Bjarna Benediktsson.
Benedikt sagði á fundinum í kvöld að bæta þurfi vinnubrögð á Alþingi, þegar flokksmenn sögðust ósáttir við Bjarna Benediktsson. Vísir/ernir
Flokksmenn Viðreisnar létu í ljós óánægju sína með Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem sakaður hefur verið um að hafa setið á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum fram yfir kosningar, á fundi þeirra í Ármúla í kvöld. Skýrslan var afhent Bjarna í október en var ekki gerð opinber fyrr en síðastliðinn föstudag.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tók undir áhyggjur flokksmanna sinna og sagði að þessi vinnubrögð þyrfti að laga. Hins vegar sé betra að laga þau innan stjórnar en utan.

Formanninum var jafnframt tíðrætt um samstarfið við Bjarta framtíð, en flokkarnir tveir gengu sameiginlega til viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn. Sagðist hann hafa talað við Óttarr Proppé, formann Bjartrar framtíðar, daglega eftir kosningar, að undanskildum jóladegi. Þá sagðist hann reglulega hafa leitað ráðlegginga hjá flokknum, verandi nýr á þingi.

Benedikt sló jafnframt á létta strengi en hann byrjaði ræðu sína á að lofa fundargestum að taka ekki víkingaklappið. Það hafi verið meira en nóg að hafa gert sig að fífli á gamlársdag, og vísaði þar með í Kryddsíld Stöðvar 2 þar sem formennirnir, auk Tólfunnar og nokkurra landsliðsmanna í fótbolta, tóku húh-ið fræga. Uppákomuna má sjá hér fyrir neðan.

Nýr stjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var kynntur á fundum flokkanna nú í kvöld. Ríkisstjórnarsamstarfið hefur verið samþykkt í röðum Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar, en fundur Bjartrar framtíðar stendur enn yfir, en heimildir fréttastofu herma að þar sé einnig ósætti vegna skattaskjólsskýrslunnar.

Bjarni Benediktsson sagði við Vísi fyrr í kvöld að ráðherraskipan yrði kynnt annað kvöld.


Tengdar fréttir

Viðreisn samþykkti stjórnarsáttmálann samhljóða

Ráðgjafaráð Viðreisnar samþykkti á fundi sínum í kvöld ríkisstjórnarsamstarf flokksins við Sjálfstæðisflokkinn og Bjarta framtíð. Stjórnarsáttmálinn var samþykktur samhljóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×