Innlent

Sérfræðilæknum í fullu starfi á Landspítalanum verður fjölgað til muna

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Sérfræðilæknum í fullu starfi á Landspítalanum verður fjölgað til muna á næstunni en markmiðið er að stytta meðallengd innlagna sem er birtingarmynd fjölda vandamála. Forstjóri spítalans segir að aðeins verði gerðar undantekningar á því að læknar séu í fullu starfi þegar það hentar spítalanum og sjúklingum hans.

Í dag eru fjórir mánuðir frá því ráðgjafafyrirtækið McKinsey skilaði skýrslu um rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítalans.

Í skýrslunni eru lagðar til sjö aðgerðir sem miða að því að styrkja íslenskt heilbrigðiskerfi til framtíðar. Veigameista aðgerðin sem lögð er til lýtur að því að stytta meðallengd innlagna sem sé birtingarmynd fjölda vandamála á Landspítalanum. Meðal annars skort á getu til að taka mikilvægar klínískar ákvarðanir, langa biðlista og skort á afkastagetu utan spítalans sem hindrar flæði frá honum.

Í skýrslunni kemur fram að víðast hvar erlendis hefur meðallegutíminn styst en því sé öfugt farið á Landspítalanum þar sem hann hefur lengst undanfarin ár.

Lykilaðgerð til að bregðast við þessum vanda sé að auka viðveru sérfræðilækna á spítalanum en stór hluti þeirra starfar þar í hlutastarfi í dag.

Gæti spítalinn ekki upp á einsdæmi ákveðið að ráða aðeins inn sérfræðilækna á þeirri forsendu að þeir væru í fullu starfi á spítalanum?

„Jú, algjörlega. Við erum að ljúka aðgerðaráætlun sem miðar að því að fjölga mjög þeim sérfræðilæknum sem verða hjá okkur í fullu starfi á næstu árum. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem við erum að skoða þar,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Hann vísar til þess að í dag er tæplega helmingur lækna spítalans í hlutastarfi.

„Ég tel að við eigum að stefna að því að sem flestir læknar sem útskrifast verði hjá okkur í fullu starfi og það séu eingöngu gerðar undantekningar frá því þegar það hentar spítalanum og sjúklingum hans,“ segir Páll.

Fjölgun sérfræðilækna í fullu starfi á Landspítalanum tengist annarri aðgerð sem lögð var til í McKinsey skýrslunni um að taka skuli meðvitaða ákvörðun byggða á staðreyndum um skipulag einkastofa sérfræðilækna.

Í skýrslunni kemur fram að sá mikli munur á tekjumöguleikum sérfræðilækna milli opinbera og einkageirans leiði til þess að fjöldi sérfræðilækna á Landspítalanum er þar í hlutastarfi.

Páll segir þetta verkefni helst vera á borði heilbrigðisráðherra enda þurfi að taka þetta kerfi til heildarendurskoðunar.

„Í einhverjum tilfellum getur það hentað spítalanum og sjúklingum hans að ráða fólk í minna stöðuhlutfalli en það verður þá að vera út frá hagsmunum sjúklinga og spítalans en ekki hagsmunum viðkomandi lækna.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×