Innlent

Lögregla kölluð til vegna manns sem fékk sig fullsaddan af flugeldasprengingum í Hafnarfirði

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan minnir á í dagbók sini að öll notkun flugelda er bönnuð eftir 6. janúar.
Lögreglan minnir á í dagbók sini að öll notkun flugelda er bönnuð eftir 6. janúar.
Á sjötta tímanum í morgun barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um skemmdarverk á bíl í Hafnarfirði. Sá sem er grunaður um að hafa valdið tjóni á bifreiðinni lýsti því fyrir lögreglu að flugeldasprengingar frá Hafnarfjarðarhöfn hefðu haldið fyrir honum vöku.

Maðurinn fór því á staðinn til að ræða við þá sem voru að skjóta upp flugeldum en þegar þangað var komið lokuðu þeir sig af inni í bifreið sinni og neituðu að ræða við manninn. Hann tók í hurðarhún sem brotnaði af bifreiðinni þegar ökumaður ók í burtu.

Lögreglan minnir á í dagbók sinni að öll notkun flugelda er bönnuð eftir 6. janúar.

Í dagbókinni kemur jafnframt fram að karlmaður var handtekinn í miðborginni á sjötta tímanum í morgun eftir stutta eftirför en hann hafði skömmu áður stolið bifreiðinni sem hann ók og ók meðal annars niður umferðarskilti. Er hann grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis- og fíkniefna.

Skömmu fyrir klukkan sex í morgun barst tilkynning um ölvaðan mann sem öskraði fyrir utan fjölbýlishús í austurbænum. Skömmu síðar var hann kominn inn á stigagang. Hann neitaði að gefa upp nafn sitt þegar lögregla kom á vettvang og var látinn sofa úr sér á lögreglustöð.

Um svipað leyti var tilkynnt um líkamsárás í miðborginni en sá sem fyrir henni varð þurfti að leita á slysadeild vegna áverka sem hann hlaut, en ekki er vitað hver gerandinn er.

Á sjöunda tímanum í morgun tilkynnti leigubílstjóri að farþegi hefði ráðist á sig en sá var ósáttur við að þurfa að greiða fyrir leigubifreiðina og hljóp svo í burtu. Vitað er hver maðurinn er.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×