Innlent

Eigandi Mountaineers segir óhlýðni Wilson-hjóna hafa torveldað leit

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Aðstæður við leitina voru erfiðar. Bæði vegna veðurs og myrkurs.
Aðstæður við leitina voru erfiðar. Bæði vegna veðurs og myrkurs. Mynd/Kristinn Ólafsson
„Það er ýmislegt fært í stílinn hjá þeim og sumt sem er alls ekki rétt farið með,“ segir Herbert Hauksson, vettvangsstjóri og einn eigenda Mountaineers of Iceland, um frásögn Wilson-hjónanna í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær. Hjónin urðu viðskila við hóp sinn í vélsleðaferð á vegum Mountaineers við Langjökul á fimmtudag. Ferðin var farin þrátt fyrir stormviðvörun en leiðsögumenn mátu veðrið ekki til fyrirstöðu.

Veður segir Herbert að hafi verið ágætt þar til komið var að tíu mínútna ljósmyndastoppi kílómetra norðan við Skálpanesskála. Þá hafi skollið á óveður og því ekki farið upp í jökulinn.

Lítið skyggni var við jökulinn.Mynd/Kristinn Ólafsson
„Síðan gerist það þegar veðrið skellur á að Wilson-hjónin verða viðskila við hópinn. Það er vegna þess að hann rekur sig í neyðarádreparann á sleðanum. Hann virðist ekki átta sig á því hvað hefur gerst. Það tekur hann um það bil hálftíma að finna útúr því að hann hafi rekið sig í takkann,“ segir Herbert.

Í millitíðinni hafi leiðsögumennirnir áttað sig á því að einn sleðann vantaði í hópinn. Þá hafi verið hringt á neyðarlínuna og björgunarsveitina á Flúðum og beðið um aðstoð. Jafnframt hafi tíu vanir leiðsögumenn Mountaineers, auk þriggja frá samkeppnisaðila, hafið leit.

Herbert lýsir því að ökumaðurinn, David Wilson, hafi komist að því hvernig ætti að koma sleðanum í gang eftir hálftíma. „Þvert á reglurnar, sem hann viðurkenndi að honum hefðu verið kynntar í upphafi ferðar, byrjar hann að keyra. Án þess að vera með nokkuð staðsetningartæki. Hann keyrir kílómetraleið og lendir ofan í kvos. Þar lendir hann á svellbunka þannig sleðinn missir grip og festist þar. Það dugar til þess að við getum ekki fundið hann þar sem hann er kominn langt út fyrir leiðina.“

Á annað hundrað manns tóku þátt í leitinni.Mynd/kristinn ólafsson
„Það var annað sem olli okkur verulegum vandræðum. Það er að þau drepa á sleðanum til þess að spara rafmagn. Þau drepa á honum um sexleytið og setja hann ekki í gang fyrr en átta um kvöldið,“ segir Herbert. Þar af leiðir hafi leitarmenn ekki séð ljós á sleðanum. Herbert segir að líklegast hefðu ljósin sést ef kveikt hefði verið á þeim. 

„Þannig hann eiginlega eyðileggur gífurlega mikið fyrir sjálfum sér.“

Wilson-hjónin sögðust í gær vilja að fyrirtækinu yrði lokað. Herbert segist skilja reiði þeirra, enda ekkert grín að þurfa að bíða í langan tíma í kuldanum. 

„Auðvitað verður maður reiður að þurfa að bíða svona lengi. En ég er líka verulega reiður á hinum endanum með að þau skuli ekki hafa farið eftir fyrirmælum. Þau fóru að reyna að finna sína eigin leið sem var algjörlega dauðadæmt frá upphafi.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Hvers og eins að meta aðstæður hverju sinni

Tveggja ferðamanna var leitað við Langjökul í gær eftir vélsleðaferð. Varað hafði verið við stormi áður en haldið var af stað. Framkvæmdastjóri SAF segir hvers og eins fyrirtækis að meta aðstæður. Ferðamennirnir fundust seint í g




Fleiri fréttir

Sjá meira


×