Enski boltinn

Wenger um meint fagnaðarlæti eftir jafnteflið: "Leikmennirnir voru pirraðir“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger og hans menn eru að missa af lestinni.
Arsene Wenger og hans menn eru að missa af lestinni. vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að allir leikmenn sínir voru jafn pirraðir og Alexis Sánchez eftir 3-3 jafnteflið gegn Bournemouth í vikunni.

Skytturnar töpuðu dýrmætum stigum í toppbaráttunni þegar það lenti 3-0 undir gegn Bournemouth á útivelli en gerði þó vel í að koma til baka og ná í jafntefli með dramatískri endurkomu.

Alexis Sánchez var augljóslega mjög pirraður yfir frammistöðu Skyttanna og var skrifað í ensku blöðin daginn eftir að hann hefði verið þögull sem gröfin inn í búningsklefa Arsenal eftir leik á meðan aðrir leikmenn liðsins fögnuðu stiginu.

Það er ekki rétt, að sögn Wengers. „Allir leikmennirnir vilja þetta jafn mikið og hann [Sánchez]. Leikmennirnir voru pirraðir. Það fagnaði enginn í búningsklefanum því það voru allir svo svekktir með að vinna ekki leikinn,“ sagði Frakkinn á blaðamannafundi fyrir bikarleik liðsins um helgina.

„Það er enginn munur á því hversu mikið strákana langar að vinna leiki. Það vilja allir vinna,“ segir Wenger.

Oliver Giroud, framherji Arsenal, fékk bæði lof og last fyrir að fagna jöfnunarmarki sínu eins og óður maður í staðinn fyrir að taka boltann og hlaupa með hann á miðjuna og þannig sýna að Skytturnar ætluðu sér að skora eitt til viðbótar og vinna leikinn.

„Ég skil báðar hliðar málsins. Þegar við vorum 3-0 undir héldu leikmennirnir í höfðinu að leikurinn væri tapaður en maður vill samt að menn hlaupi með boltann á miðjuna. Ég skil samt Giroud. Hann hélt að þetta væri tapað en svo jafnar hann á 92. mínútu og tryggir það að liðið tapar ekki,“ segir Arsene Wenger.


Tengdar fréttir

Wenger: Við neituðum að tapa þessum leik

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sá sína menn ná stigi út úr leik í kvöld þar sem leit út fyrir að liðið væri að tapa stórt eftir 68 mínútna leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×