Enski boltinn

Griezmann lofað sama launapakka og Pogba ef hann kemur til United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Antonine Griezmann á leið á Old Trafford?
Antonine Griezmann á leið á Old Trafford? vísir/getty
Forráðamenn enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United eru búnir að setjast niður með umboðsmanni franska framherjans Antonine Griezmann og ræða við hann möguleik kaup á leikmanninum frá Atlético Madrid.

Þetta kemur fram í götublaðinu The Sun í dag en þar segir að Manchester United sé tilbúið að borga Griezmann sömu laun og Pogba fær en Pogba var keyptur frá Juventus síðasta sumar fyrir metfé. Hann er dýrasti fótboltamaður sögunnar.

Pogba fær 220.000 pund á viku eða 30 milljónir íslenskra króna fyrir sín störf á Old Trafford og þann launapakka er United tilbúið að reiða fram fyrir Griezmann gangi hann í raðir félagsins.

Griezmann hefur smám saman komið sér í hóp með allra bestu fótboltamönnum heims undanfarin misseri en hann og Pogba eru miklir vinir utan vallar sem United-menn vonast til að hjálpi þeim að landa framherjanum.

Griezmann, sem var markahæsti leikmaður Evrópumótsins síðasta sumar, fór í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Atlético Madrid síðasta vor og í úrslitaleik EM með franska liðinu en þurfti að sætta sig við silfur í báðum úrslitaleikjunum.

Hann var tilnefndur til Gullboltans undir lok síðasta árs og þá kom hann einnig til greina sem besti leikmaður heims þegar FIFA-verðlaunin fóru fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×