Innlent

Fleiri flugeldaslys í ár en í fyrra

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Tíu hafa leitað til bráðamóttöku Landspítalans vegna flugeldaslysa síðustu daga, átta um áramótin og tveir eftir áramótin.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala, segir slysin heldur fleiri í ár en á síðasta ári en þó færri en fyrir um tíu árum.

„Við sjáum því miður svolítið um það ennþá að fólk sé að fikta í flugeldum, að breyta og búa til sprengjur, og það er alltaf hættulegt og það virðist koma meira upp eftir áramótin,” segir Jón Magnús.

Alvarlegasta flugeldaslysið þessi áramótin kom inn á bráðamóttöku í gær þegar sprengiefni úr skoteldum í glerkrukku sprakk í höndunum á sextán ára pilti.

„Það sem er hættulegt við þessi slys er að það verða öflugri sprengingar og tíminn frá því að kveikt er á flugeldanum þar til hann springur er styttri. Fólk hefur styttri tíma til að koma sér í burtu. Þá getur eitthvað kastast í augun eða líka orðið miklar sprengingar, sem geta valdið verulegra handaáverka eða annars staðar á líkamanum.“

Mildi er að ekki fór verr þegar flugeldur skaust inn um opinn svefnherbergisglugga í Gnoðvoginum í gær og sprakk á rúminu.

„Þetta var raketta sem var búið að brjóta spýtuna af og henda inn. Þetta er með vilja gert. Sem betur fer vorum við heima og ekki í rúminu, en íbúðin hefði orðið alelda á nokkrum mínútum og þau á hæðinni fyrir ofan eru með ungabarn,” segir Ásta Erla Jónasdóttir.

„Hvað ef annað hvort okkar hefði legið þarna eða litli frændi minn sem hefur verið í pössun? Þetta er alveg hræðilegt.“ 

Ekki er búið að finna meinta gerendur en atvikið er rannsakað sem tilraun til íkveikju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×