Viðskipti innlent

EFLA fékk verðlaun fyrir Stráið og Spíruna í Noregi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Háspennumastrið "Stráið“ sem bar sigur úr býtum.
Háspennumastrið "Stráið“ sem bar sigur úr býtum. EFLA
Verkfræðistofan EFLA kom, sá og sigraði í samkeppni Statnett í Noregi um nýja 420 kV háspennulínu sem liggur í gegnum norsku höfuðborgina Ósló og aðliggjandi sveitarfélög. Línan kemur fyrir augu íbúa á hverjum degi og því mikilvægt að háspennumöstrin falli sem best að þéttbýlu umhverfinu.

EFLA skilaði inn þremur tillögum í keppnina og lentu tillögur EFLU í tveimur efstu sætunum. Vinningstillagan heitir „Stráið“ en „Spíran“ hafnaði í öðru sæti. EFLA vann sínar tillögur í samstarfi með Evu Widenoju, iðnhönnuð frá Widenoja Design AS. Að tillögunni komu bæði starfsmenn EFLU á Íslandi og starfsmenn EFLU í Noregi, segir í tilkynningu frá EFLU.

Steinþór Gíslason, fagstjóri hjá EFLU, er mörgum knattspyrnuunnendum að góðu kunnur í bakvarðarstöðunni á árum áður hjá Víkingi og Val.
„EFLA er að ná frábærum árangri í línuverkefnum erlendis og sigur í þessari samkeppni er enn ein staðfestingin á því,“ segir Steinþór Gíslason fagstjóri hjá EFLU. Á undanförnum árum hafa flutningsfyrirtæki raforku víða um heim skoðað ýmsar leiðir til að fá nýjar háspennulínur til að falla sem best inn í umhverfið.

„EFLA hefur síðastliðið ár fengið nýja rammasamninga á sviði háspennulínuhönnunar hjá Statnett í Noregi, Svenska Kraftnät í Svíþjóð og Energinet í Danmörku og hlotið hæstu faglegu einkunn í öllum samningunum. Þetta eru allt raforkuflutningsfyrirtæki sambærileg Landsneti á Íslandi. EFLA býr yfir 40 ára reynslu af háspennulínuhönnun og þar af um 25 ára alþjóðlegri reynslu sem hefur komið EFLU í fremstu röð á þessu sviði í Skandinavíu. Einnig hefur EFLA komið að stórum loftlínuverkefnum í Póllandi, Frakklandi og Grænlandi auk minni verkefna í nokkrum löndum Afríku og Kanada,“ segir í tilkynningunni. 

Hjá EFLU starfa yfir 300 starfsmenn en þar ef eru yfir 40 starfsmenn í ráðgjöf á sviði háspennulína sem bæði starfa á Íslandi, hjá EFLU AS í Noregi og EFLU AB í Svíþjóð auk 20 manna dótturfyrirtækis í Frakklandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×