Enski boltinn

Barton varla mættur til Jóa Berg og félaga en gæti verið á leið í bann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Joey Barton. Í alvöru.
Joey Barton. Í alvöru. vísir/getty
Vandræðagemsinn Joey Barton sem nýverið gekk aftur í raðir Burnley þar sem íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson leikur gæti verið á leið í leikbann áður en hann spilar svo mikið sem einn leik fyrir liðið.

Barton hefur frest þar til sex á breskum tíma í dag til að svara ákæru enska knattspyrnusambandsins vegna 1.260 veðmála sem hann lagði á tíu ára tímabili frá mars 2006 til maí 2016 þegar hann var meðal annars leikmaður í ensku úrvalsdeildinni.

Þessi 34 ára gamli miðjumaður var ákærður í síðasta mánuði fyrir veðmálin en það var veðmálafyrirtæki sem Barton stundaði iðju sína hjá sem lét enska knattspyrnusambandið vita af þessu, samkvæmt heimildum Sky Sports.

Barton gæti átt yfir höfði sér leikbann auk þess sem hann gæti fengið sekt en leikmaðurinn kom til enska úrvalsdeildarfélagsins í desember eftir að hann yfirgaf skoska stórliðið Rangers.

Barton kom sér í vandræði hjá Rangers vegna veðmála en hann var úrskurðaður í eins leiks bann af skoska knattspyrnusambandinu í nóvember þegar hann viðurkenndi að hafa lagt 44 veðmál á fótboltaleiki frá júlí 2016 til september eða eftir að hann fékk samning hjá Rangers.

Fótboltamenn á Bretlandseyjum mega ekki veðja á leiki og er Barton því enn eina ferðina í vandræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×