Kanadíska olíufélagið Ithaca hefur skilað inn sérleyfi sínu á Drekasvæðinu. Stjórnarformaður Eykons segir menn vilja einbeita sér að sérleyfi kínverska félagsins CNOOC, sem gefi fyrirheit um fjórfalt stærri olíulind en fundist hafi við Noreg og Bretland. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Svo vill til að það eru nákvæmlega fjögur ár í dag frá því olíuleitin hófst formlega þegar fyrstu sérleyfunum var úthlutað í Ráðherrabústaðnum. Það var í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem fyrstu tvö leyfin voru afhent en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var tekin við þegar þriðja sérleyfinu var úthlutað.

En síðan hefur saxast á hóp sérleyfishafanna. Hópur undir forystu Faroe Petroleum skilaði inn sínu leyfi fyrir tveimur árum og í dag tilkynnti Orkustofnun að Ithaca-hópurinn hefði einnig lagt inn sitt leyfi. Þar með stendur hópur undir forystu kínverska félagsins CNOOC einn eftir.
Í tilkynningu Orkustofnunar kemur fram að túlkun gagna, sem rannsóknarskipið Harrier Explorer aflaði fyrir Ithaca á Drekasvæðinu síðastliðið sumar, hafi leitt til þeirrar ályktunar að ekki væri ástæða til að halda áfram olíuleitinni.

Íslenska félagið Eykon er aðili að leyfinu sem skilað var í dag en einnig að eina leyfinu sem nú er eftir, og ráðamenn þessu eru ekki á því að þetta boði einhver endalok. Stjórnarformaður Eykons, Heiðar Guðjónsson, segir félagið hafa stutt það að Ithaca-leyfinu yrði skilað inn enda sé CNOOC-leyfið mun vænlegra.

„Við erum í raun og veru að viðurkenna það að við erum ekki að fara að bora á báðum stöðunum. Við ætlum að bora á öðrum staðnum og þá veljum við þann stað sem er meira lofandi og það er CNOOC-leyfið,“ segir Heiðar.
„Þar erum við með gríðarstóra olíugildru sem er áttahundruð ferkílómetrar, - í raun og veru fjórum sinnum stærri heldur en nokkur olíulind eða gaslind sem hefur fundist í kringum Noreg eða Bretland. Það er auðvitað svæði sem við viljum einbeita okkur að.“
Skip á vegum CNOOC-hópsins, Oceanic Challenger, rannsakaði Drekasvæðið haustið 2015. Heiðar segir að frekari mælingar á svæðinu verði boðnar út fyrir lok þessa árs.

„Svo verða mjög umfangsmiklar mælingar í gangi 2018 og við stefnum ótrauðir á að bora þar 2020,“ segir stjórnarformaður Eykons.