Innlent

Kísilver á Bakka mun nota 66 þúsund tonn af kolum árlega

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Byggingar kísilvers PCC eru farnar að rísa á Bakka.
Byggingar kísilvers PCC eru farnar að rísa á Bakka. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Kísilverið á Bakka mun þurfa 66 þúsund tonn af kolum árlega til þess að standa undir framleiðslu á kísilmálmi. Brenna þarf kolin til þess að búa til kísilmálminn. Framkvæmdir við kísilverið ganga samkvæmt áætlun. Þetta kemur fram í umverfismati kísilvers PCC frá 2013 og RÚV fjallar um.

Í umhverfismati PCC kemur fram að fyrir hvert tonn af kísilmálmi þurfi um 400 kíló af kolefnisgjafa, svo sem kolum, koks, viðarkolum, viðar eða kolaskauta. Útlit er fyrir að allt slíkt hráefni verði flutt inn til landsins.

Þá segir einnig í skýrslunni að innihald kolefnis í kolum sé um 55% en að hámarki 20% í kurluðum við og því þurfi um sama magn af kolum á hverju ári og verksmiðjan framleiðir af kísilmálmi, eða um 66 þúsund tonn.

45 þúsund tonn þarf hinsvegar að flytja inn af við á ári, en viðarkurli er blandað saman við kolin.

Samkvæmt upplýsingum frá PCC á Íslandi er ástæða þess að brenna þarf kol og við ekki sú að búa þurfi til orku, þar sem ofninn sjálfur sé keyrður áfram með rafmagni. Heldur er ástæðan sú að til þess að framleiða kísilmálm þarf að aðskilja sílikon frá súrefni í ofninunum en það gerist einungis með háum hita og til að koma í veg fyrir að súrefnið bindist því aftur eru kolefnin notuð.

Segir í skýrslunni að ekki sé til betri leið til þess að framleiða kísilmálm á þessari stærðargráðu.

Samkvæmt umsögn Skipulagsstofnunar um verksmiðjuna frá árinu 2013 er augljóst að mengunarefni frá verksmiðjunni muni hafa neikvæð áhrif á loftgæði í nágrenni verksmiðjunnar. Styrkur efnanna á þó að vera undir viðmiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×