Innlent

Átján mánaða fangelsi fyrir smygl á kílói af kókaíni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn hefur áður hlotið þungan dóm fyrir innflutning á fíkniefnum.
Maðurinn hefur áður hlotið þungan dóm fyrir innflutning á fíkniefnum. vísir/anton brink
Fimmtugur Hollendingur, Yunes Biranvand, hefur verið dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir að reyna að smygla tæpu kílói af kókaíni til landsins þann 3. október síðastliðinn. 

Biranvand var handtekinn í flugstöð Leifs Eiríkssonar en hann kom til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn. Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm sinn í gær en Hollendingurinn játaði brot sitt skýlaust.

Efnin faldi hann í líkama sínum í 101 pakkningu. Taldi dómurinn ljóst að hann væri ekki eigandi efnanna heldur burðardýr en hann fékk fimm ára dóm í Svíþjóð árið 2006 fyrir fíkniefnainnflutning. Sá dómur hafði þó ekki áhrif á afstöðu héraðsdóms í málinu.

Biranvand var dæmdur til að greiða tæplega 1,5 milljónir króna í sakarkostnað en þar af voru 744 þúsund til verjandans, Bjarna Haukssonar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×